20 ár fyrir að pynta son sinn í búri

Astrid Wagner, verjandi aðalákærðu, ræðir við fjölmiðla í réttinum í …
Astrid Wagner, verjandi aðalákærðu, ræðir við fjölmiðla í réttinum í Krem fyrr í vikunni. AFP/Helmut Fohringer

Rúmlega þrítug austurrísk kona var í gær dæmd til 20 ára fangelsisvistar fyrir að loka tólf ára gamlan son sinn inni í hundabúri og svelta hann þar og pynta.

Var um ítrekaða háttsemi að ræða tímabilið júlí til nóvember 2022 en meðal þeirra písla sem sonurinn mátti þola í prísund sinni var þegar móðir hans hellti yfir hann köldu vatni auk þess sem hitastig var lágt fyrir þar sem búrið var staðsett.

Samsek henni taldist fertug vinkona hennar sem hlaut fjórtán ára dóm, meðal annars fyrir að hvetja móðurina áfram með skriflegum skilaboðum samfélagsmiðla. Var dómfelldu báðum gert að gangast undir sálfræðimeðferð.

Hugðist „aga“ soninn

Geðlæknir sem settist í vitnastúku við réttarhöldin komst að þeirri niðurstöðu að aðalákærða væri haldin miklum andlegum annmörkum auk þess að hafa stofnað til „vænisjúks gagnvirknisambands“ við meðákærðu.

Móðirin var handtekin síðla árs 2022 í kjölfar þess er félagsráðgjafi kom á heimilið, að eigin sögn að áeggjan vinkonunnar, og fann drenginn þar í dái, alvarlega vannærðan og ofkældan. Var líkamshiti hans á tímabili aðeins 26,8 gráður sem telst lífshættulegt ofkælingarástand.

Bentu ákærðu hvor á aðra við aðalmeðferð málsins en aðalákærða bar því við að henni hefði ekki gengið annað til en að „aga“ soninn með aðgerðum sínum, eftir því sem austurríska fréttastofan APA greinir frá.

Dómarinn í málinu komst að þeirri niðurstöðu að fórnarlambið, sonurinn, hefði verið „eyðilagt kirfilega“ og hafa austurrísk yfirvöld nú fyrirskipað rannsókn sem ætlað er að leiða í ljós hvort grípa hefði mátt til einhvers konar aðgerða sem orðið hefðu drengnum til bjargar fyrr í ferlinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert