Árás við mosku í Kaupmannahöfn

Lögreglan í Kaupmannahöfn er með mikinn viðbúnað við mosku í …
Lögreglan í Kaupmannahöfn er með mikinn viðbúnað við mosku í borginni eftir að árásarmaður með eggvopn lét þar til skarar skríða á fimmta tímanum í morgun. Ljósmynd/Vefsíða dönsku lögreglunnar

Lögreglan í Kaupmannahöfn er með mikinn viðbúnað við mosku í norðvesturhluta borgarinnar eftir að óþekktur árásarmaður lagði þar til atlögu með eggvopni á fimmta tímanum í morgun að dönskum tíma.

Einn hefur verið fluttur á slysadeild en sá fannst utan við moskuna er lögreglu bar að garði. „Viðkomandi fannst fyrir utan moskuna en við höfum ástæðu til að ætla að atburðurinn tengist moskunni,“ segir Lasse Michelsen aðstoðarlögreglustjóri í samtali við Ritzau-fréttastofuna.

Hefur lögregla lokað stóru svæði umhverfis moskuna og er þar nú við rannsókn málsins sem Michelsen kveður munu standa langt fram á dag. Enn sem komið er liggja engar upplýsingar fyrir um árásarmanninn.

DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert