Formaður Íhaldsflokksins fellur frá

Søren Pape Poulsen, formaður danska Íhaldsflokksins, á kosninganótt 2022.
Søren Pape Poulsen, formaður danska Íhaldsflokksins, á kosninganótt 2022. Henning Bagger/Ritzau Scanpix/AFP

Søren Pape Poulsen formaður danska Íhaldsflokksins lést í dag á háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum, aðeins 52 ára, eftir að hafa fengið heilablæðingu á miðstjórnarfundi flokks síns í gær og hnigið niður.

Óhætt er að segja að þetta hafi komið dönsku þjóðinni í opna skjöldu, en samstarfsmenn hans í öllum flokkum hafa lýst harmi vegna fráfalls hans og lýst honum sem vönduðum, vænum og hláturmildum manni.

„Hann féll niður mitt í því sem hann hafði helgað líf sitt,“ skrifar Søren Vandsø, náinn vinur Poulsens og framkvæmdastjóri flokksins, sem var á miðstjórnarfundinum, sem haldinn var í Vejen á Jótlandi.

Innan við tíu ár eru síðan Søren Pape Poulsen varð leiðtogi Íhaldsflokksins, þegar forveri hans Lars Barfoed hætti. Hann hafði áður verið vinsæll borgarstjóri í Viborg, en varð ekki að þeirri ósk sinni að verða forsætisráðherra í stjórn borgarlegu flokkanna og gegndi embætti dómsmálaráðherra 2016-2019.

Helgaði sig gömlum og nýjum gildum

Søren Pape Poulsen fæddist á gamlársdag 1971, en fjórum mánuðum síðar var hann sóttur á barnaheimili í Lyngby af Svend og Ruth Poulsen, sem tóku hann að sér og ættleiddu. Hann ólst upp á bóndabæ þeirra í Vejerslev, skammt frá Bjerringbro á Mið-Jótlandi. Þau lifa hann bæði.

„Mamma og pabbi ólu mig upp í heilbrigðum gildum, sem ég er þakklátur fyrir í dag,“ skrifaði Søren Pape Poulsen á vef sinn um foreldrana, sem lifa hann bæði.

„Þau kenndu mér að lifa ekki um efni fram, að bera virðingu fyrir öðrum og að haga mér vel. Já, ég veit að það hljómar sem klisja. En þetta var það sem foreldrar mínir höfðu í fyrirrúmi og það hefur mótað mig alla tíð síðan.“

Søren Pape Poulsen var samkynhneigður og var frá 2014 í sambandi við Josué Medina Vásquez frá Dóminíska lýðveldinu, sem hann gekk síðar að eiga. Þeir skildu 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert