Vopnahlé: „Boltinn hjá Hamas“

Mótmælendur krefjast þess framan við forsætisráðherrabústaðinn í Jerúsalem í dag …
Mótmælendur krefjast þess framan við forsætisráðherrabústaðinn í Jerúsalem í dag að ísraelsk stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma gíslunum úr haldi Hamas. AFP/Gil Cohen-Magen

Ísraelsk stjórnvöld hafa að mestu fallist á sex vikna langt vopnahlé í átökunum á Gasasvæðinu og standa nú öll spjót á Hamas-hryðjuverkasamtökunum að sleppa viðkvæmustu gíslunum úr haldi svo vopnahléssamningur taki gildi, eftir því sem hátt settur bandarískur embættismaður greinir AFP-fréttastofunni frá.

„Þarna er rammasamningur á ferð sem Ísraelar hafa meira og minna fallist á,“ sagði heimildarmaðurinn við AFP en hann ræddi málið í skjóli nafnleyndar. „Núna er boltinn hjá Hamas.“

Hafa milligöngumenn unnið þrotlaust að samningsgerðinni í því augnamiði að hafa frágenginn samning á borðinu við upphaf ramadan, föstumánaðar múslima, sem er eftir viku.

Sjúkir, særðir, aldnir

„Um verður að ræða sex vikna vopnahlé á Gasa sem hefst í dag fallist Hamas á að sleppa vissum hópum viðkvæmra gísla úr haldi – sjúkum, særðum, eldra fólki og konum,“ segir heimildarmaðurinn. „Ég vil bara leggja á það áherslu að samþykki Hamas þetta tekur vopnahlé gildi,“ hefur AFP enn fremur eftir honum.

Er það von bandarískra embættismanna að samningur í höfn skapi grundvöll fyrir varanlegra friðarsamkomulag milli Ísraela og Hamas-samtakanna nú þegar væringar þeirra í millum hafa staðið síðan í byrjun október.

Gert var ráð fyrir að sendinefnd á vegum Hamas-samtakanna flygi til Kaíró í Egyptalandi í dag til friðarviðræðna tjáði annar heimildarmaður AFP-fréttastofunni, að þessu sinni maður tengdur nefndinni.

Ekkert komi í stað landflutninga

Gáfu bandarísk yfirvöld það út í dag að þau hefðu kastað hjálparbirgðum úr flugvél yfir Gasasvæðinu í kjölfar árásar á hjálparstöð þar, sem kostaði rúmlega eitt hundrað Palestínumenn lífið. Létu þau þess þó getið að slík birgðaafhending kæmi engan veginn í staðinn fyrir birgðir sem fluttar væru með ökutækjum til svæðisins.

„Ekkert af þessu – hvorki sjó- né loftflutningar – kemur í stað þeirrar grundvallarþarfar að flytja nauðþurftir landleiðina. Þar er komin áhrifaríkasta leiðin til að koma miklu magni af nauðþurftum á áfangastað,“ sagði enn einn heimildarmaðurinn við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert