Ungmenni handtekin grunuð um undirbúning hryðjuverka

Frá Brussel. Mynd úr safni.
Frá Brussel. Mynd úr safni. AFP

Belgíska lögreglan hefur handtekið fjögur ungmenni vegna skilaboða sem þau sendu sín á milli sem bentu til þess að þau væru að undirbúa hryðjuverk.

Talsmaður saksóknara sagði í samtali við AFP-fréttaveituna að hættan á árás væri „nógu mikið yfirvofandi til að grípa inn í“.

Þrjú ungmennanna eru á unglingsaldri og sá fjórði er 18 ára gamall maður. 

Einstaklingarnir voru handteknir í aðgerðum lögreglu í Brussel, Ninove, Charleroi og Liege. 

Engin vopn eða sprengjur fundust. Lögregla haldlagði farsíma og tölvur til rannsóknar. 

Eric Van Der Sypt, talsmaður saksóknaraembættisins, sagði að skilaboð ungmennanna hafi vakið „nógu miklar áhyggjur til þess að bregðast við og framkvæma húsleitir“.

Ungur aldur einstaklinganna leiddi til aukinnar varkárni lögreglu. 

Lögregla yfirheyrir nú ungmennin og mun dómari úrskurða framhaldið í dag eða á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert