Sendiráðsbifreið á teinum ráðgáta

Sendiráðsbifreiðin á teinunum í Stokkhólmi. Lögregla og sendiráðið rannsaka nú …
Sendiráðsbifreiðin á teinunum í Stokkhólmi. Lögregla og sendiráðið rannsaka nú hvernig í pottinn er búið. Ljósmynd/Vegfarandi

Sendiráð Eþíópíu í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi biðst innilega afsökunar í kjölfar þess er ein bifreiða sendiráðsins fannst yfirgefin á lestarteinum þar í borginni, milli Alvik og Solna.

Olli þetta miklum töfum á morgunsamgöngunum en bifreiðin var þó raunar skilin eftir á teinunum um fimmleytið að sænskum tíma í gærmorgun, sunnudag.

Að sögn Andreas Strömberg, upplýsingafulltrúa Stockholms Lokaltrafik sem annast samgöngur í borginni, var ekkert áhlaupaverk að koma bifreiðinni burt þar sem enginn akvegur var nálægt enda ráðgáta hvernig bifreiðin komst þangað sem hún stóð. Rannsakar lögregla það nú.

Rannsakað innanhúss

Sendiráðið hefur einnig hleypt eigin rannsókn af stokkunum eftir því sem segir í tölvupósti þess til sænska ríkisútvarpsins SVT. „Sendiherrann biðst velvirðingar á óhappinu og þeim vandræðum sem af því hafa sprottið. Við höfum hafið rannsókn innanhúss á því hvernig þetta vildi til,“ segir þar.

Umferð um lestarteinana komst í eðlilegt horf klukkan 09:17 að staðartíma í morgun, upplýsir Strömberg hjá SL enn fremur.

SVT

DN

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert