Sjónvarpsþáttur blæs lífi í manndrápsrannsókn

Íbúar í Larvik voru slegnir óhug eftir að Ronald Ramm, …
Íbúar í Larvik voru slegnir óhug eftir að Ronald Ramm, eftirlaunaþegi á áttræðisaldri þar í bænum, fannst hrottalega myrtur á heimili sínu 8. desember 1995. Jørn Lier Horst, síðar einn þekktasti glæpasagnahöfundur Noregs, átti sinn fyrsta starfsdag í lögreglunni í Larvik þann dag og byggði fyrstu bók sína, Lykilvitnið, á málinu. Ljósmynd/Norska lögreglan

Gamalt manndrápsmál lögreglunnar í suðausturumdæminu í Noregi hefur gengið í endurnýjun lífdaganna í kjölfar umfjöllunar um það í sjónvarpsþættinum Åsted Norge, Glæpavettvangurinn Noregur, á TV2 sem 600.000 manns horfa að jafnaði á og hefur oftar en einu sinni breytt gangi norskra sakamála og endurvakið gömul mál þegar þáttastjórnandinn Jens Christian Nørve fær til sín gesti, meðal annars úr röðum rannsóknarlögreglumanna og lögmanna.

Árið 2019 leysti rannsóknarteymi þáttarins til að mynda 29 ára gamalt mál nýfæddrar stúlku sem skilin var eftir í ruslagámi og varð þáttur Nørve til þess að þá tæplega þrítug kona fékk loks svör við því hvers vegna hún fannst í gámi í frumbernsku.

Gekk á fund lögreglu

Að þessu sinni hefur grunur lögreglunnar í Larvik fallið á konu sem nú er talin hafa átt þátt í hrottafengnu drápi Ronalds Ramm, 71 árs gamals eftirlaunaþega sem fannst myrtur á heimili sínu í desember 1995. Enginn hefur hlotið dóm fyrir ódáðina og telst málið enn óupplýst.

Hafði gamli maðurinn verið barinn minnst átján sinnum í höfuðið og var þar aðeins um hluta áverka hans að ræða. Í kjölfar þess er fjallað var um málið í Åsted Norge árið 2022 féll konan saman undan eigin samvisku og gekk síðar á fund lögreglu til að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Heimili eftirlaunaþegans í smábænum kyrrláta, Larvik, varð vettvangur lögreglurannsóknar sem …
Heimili eftirlaunaþegans í smábænum kyrrláta, Larvik, varð vettvangur lögreglurannsóknar sem enn sér ekki fyrir endann á nú, 28 árum síðar. Ljósmynd/Norska lögreglan

Liggur hún nú undir grun um meiri háttar líkamsárás, en ekki manndráp, þar sem lögreglu er ekki unnt að sýna fram á að konan hafi verið inni í húsi Ramm þegar brotið átti sér stað fyrir rúmum 28 árum.

Þar með er mál hennar fyrnt og verður henni ekki gerð refsing fyrir líkamsárásina þrátt fyrir að lögregla hafi veitt henni formlega stöðu grunaðrar í rannsókninni. Annað væri uppi á teningnum væri hægt að tengja konuna við árásina á Ramm með þeim hætti að hún teldist samverkamaður við manndráp.

Nú eða aldrei að leysa málið

„Okkur hefur orðið nokkuð ágengt við rannsóknina sem hefur gert okkur kleift að gefa aðstandendum skýrari svör um hvað líklega gerðist,“ segir Odd Skei Kostveit, rannsóknarlögreglumaður í suðausturumdæminu, við norska ríkisútvarpið NRK.

„Ég held að það sé nú eða aldrei eigi að leysa þetta mál,“ segir Jørn Lier Horst við NRK, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og nú þekktur glæpasagnahöfundur, en Horst er búsettur í Stavern, nágrannabæ Larvik, og eiga flestar sagna hans sér sögusvið þar að hluta eða í heild. Fyrsta bók Horst, Nøkkelvitnet, eða Lykilvitnið, sem út kom árið 2004, byggði einmitt á máli Ramm en 8. desember 1995, dagurinn sem líkið fannst, var fyrsti starfsdagur Horsts í lögreglunni í Larvik.

Hún var ekki glæsileg aðkoman á heimili gamla mannsins sem …
Hún var ekki glæsileg aðkoman á heimili gamla mannsins sem fannst þar í blóði sínu og hafði meðal annars hlotið átján þung höfuðhögg. Lausn málsins gæti verið í sjónmáli. Ljósmynd/Norska lögreglan

„Manndráp er alvarlegasta brot sem framið verður. Slíkt vekur sterkar tilfinningar í samfélaginu,“ segir Horst við NRK og bætir því við að lausn manndrápsmála sé þar með samfélagslega mikilvæg.

„Ég er þakklátur fyrir það sem nú var að þokast áfram. Við erum nær lausn,“ segir glæpasagnahöfundurinn enn fremur.

NRK

TV2

TV2II (byggði bók á málinu)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert