Biden og Trump öruggir sigurvegarar

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Chandan Khanna

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sýndu mikla yfirburði á ofur-þriðjudeginum svokallaða í forvali sinna flokka vegna forsetakosninganna sem verða haldnar í nóvember. 

Trump hefur verið lýstur sigurvegari í 12 af 15 ríkjum í forvali Repúblikanaflokksins, þar á meðal í lykilríkinu Norður-Karólínu.

Andstæðingur hans Nikki Haley hefur aðeins sigrað Trump í einu ríki, Vermont, í norðausturhluta Bandaríkjanna og þykir sá sigur óvæntur. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur verið lýstur sigurvegari í 14 ríkjum en búist var við því að hann myndi tapa gegn Jason Palmer á svæði Samóaeyja í Kyrrahafi.

Nikki Haley.
Nikki Haley. AFP/Emil Lippe

Trump þarf að bíða þangað til 12. eða 19. mars þegar tölfræðilega öruggt verður að hann verði frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningum í nóvember.

Haley er undir auknum þrýstingi um að draga sig í hlé í kapphlaupinu og styðja Trump.

„Það er ástæða fyrir því að þau kalla þetta ofur-þriðjudag,” sagði Trump í ræðu sem hann hélt í Flórída. „Þetta er stór dagur. Þeir segja mér, sérfræðingar og aðrir, að þetta hafi aldrei áður verið svona, aldrei svona öruggur sigur.”

Joe Biden.
Joe Biden. AFP/Brendan Smialowski

Joe Biden varaði við því að Trump væri „staðráðinn í að eyðileggja” lýðræði Bandaríkjanna.

Trump „er staðráðinn í að eyðileggja lýðræðið okkar, taka í burtu grundvallarréttindi eins og möguleika kvenna til að taka sínar eigin ákvarðanir í heilbrigðismálum og lækka skatta upp á milljarða dollara í þágu þeirra ríku – og hann mun gera og segja hvað sem er til að koma sér til valda,” sagði Biden í yfirlýsingu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert