Biden skaut föstum skotum á Trump

Biden flytur stefnuræðu sína.
Biden flytur stefnuræðu sína. AFP/Chip Somodevilla

Joe Biden Bandaríkjaforseti skaut föstum skotum á andstæðing sinn í komandi forsetakosningum, Donald Trump, í stefnuræðu sinni í nótt, sem þótti heppnast vel.

Biden, sem er 81 árs, lét höggin dynja á forsetanum fyrrverandi, og sakaði hann um að bugta sig og beygja fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Gagnrýndi hann Trump fyrir ýmislegt, allt frá þungunarrofi til efnahagsmála.

„Það hefur ekki gerst síðan Lincoln forseti var við völd í borgarastyrjöldinni, að frelsið og lýðræðið hefur verið undir eins mikilli árás og í dag,” sagði Biden. „Það sem gerir þetta augnablik okkar svo sjaldgæft er að ráðist er gegn frelsinu og lýðræðinu bæði hér heima og erlendis.”

Langt er síðan forseti hefur ráðist með beinum orðum gegn andstæðingi sínum í komandi forsetakosningum með jafnmiklum krafti og í stefnuræðunni í gær. Biden nefndi Trump aldrei á nafn en í staðinn skaut hann 13 sinnum á hann er hann kallaði hann forvera sinn. 

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Chandan Khanna

Biden sagði að ummæli Trumps nýverið, þar hann dró í efa skuldbindingu Bandaríkjanna í garð NATO, sýna að hann „bugtaði sig og beygði fyrir rússneska leiðtoganum”. „Ég mun ekki bugta mig og beygja,” sagði Biden, við mikinn fögnuð demókrata.

Stefnuræða Bidens stóð yfir í rétt rúman klukkutíma. Efasemdir hafa verið uppi um getu hans til að sinna embætti forseta áfram sökum aldurs en ræðan gekk vandræðalaust fyrir sig. Repúblikanar bauluðu reglulega á hann og gripu fram í fyrir honum en Biden skaut á þá til baka í hvert sinn.

„Ég veit að ég lít ekki út fyrir það en ég hef verið hérna í langan tíma,” sagði Biden og uppskar hlátrasköll fyrir vikið. En „þegar þú kemst á minn aldur verða sumir hlutir skýrari en nokkru sinni fyrr. Ég þekki sögu Bandaríkjanna.”

Demókratar kölluðu „fjögur ár í viðbót” og varaforsetinn Kamala Harris reis ítrekað upp úr sæti sínu og klappaði fyrir forsetanum á meðan á ræðunni stóð. Á sama tíma hristi Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hausinn.

Kamala Harris klappar fyrir Biden. Við hlið hennar situr Mike …
Kamala Harris klappar fyrir Biden. Við hlið hennar situr Mike Johnson. AFP/Saul Loeb

Trump, sem er 77 ára, er með naumt forskot á Biden í skoðanakönnunum. Repúblikaninn stendur aftur á móti frammi fyrir mörgum dómsmálum þar sem hann er sakaður um að hafa framið glæpi með því að reyna að snúa við ósigri sínum í forsetakosningunum árið 2020 og fyrir að neita að afhenda stjórnvöldum háleynileg skjöl eftir að hann yfirgaf Hvíta húsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert