Mikið undir í stefnuræðu Bidens

Joe Biden flytur árlega stefnuræðu forseta í kvöld.
Joe Biden flytur árlega stefnuræðu forseta í kvöld. AFP

Mikið verður í húfi í kvöld er Joe Biden Bandaríkjaforseti flytur stefnuræðu sína fyrir Bandaríkjaþing. Milljónir Bandaríkjamanna horfa að jafnaði á ræðuna og munu þeir ekki bara fylgjast með því hvað Biden segir, heldur hvernig hann segir það. 

Stefnuræðan er árlegur viðburður, þar sem forsetar ávarpa báðar deildir Bandaríkjaþings og segja hversu góð „staða alríkisins“ (e. State of the Union) er. Á kosningaárum þegar forseti er í framboði hefur ræðan oft reynst góður vettvangur til að ná eyrum landsmanna.

Kannanir benda til að kjósendur hafi mestar áhyggjur af innflytjendamálum, heilsufari forsetans, átökum víðsvegar í heiminum og efnahagsástandinu. Samkvæmt nýlegum könnunum Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, forskot á Biden á landsvísu, en kosið verður 5. nóvember.

Kveðst hafa gert meira á þremur árum en aðrir á átta

Biden sagði í dag að hann hefði gert „meira á þremur árum en flestir forsetar hafa gert á átta“. Gert er ráð fyrir því að hann muni nýta ræðuna til að kynna áætlanir um skattalækkanir og ódýrari lyfseðilsskyld lyf.

„Þið réðuð mig til að vinna verkið, byggja upp hagkerfi sem virkar fyrir vinnandi fólk og bæta líf fjölskyldna,“ skrifaði Biden á X, áður Twitter.

Ekki þykir ólíklegt að hann muni hvetja repúblikana til þess að samþykkja frumvarp um aukinn stuðning við Úkraínu, Ísrael og landamæraeftirlitið.

Þá verður einn af gestum hans í þinginu kona frá Texas sem þurfti að fara í annað ríki til að fara í fóstureyðingu og má gera ráð fyrir því að Biden minnist á hana, en kannanir sýna að mörgum Bandaríkjamönnum er hugleikið aðgengi kvenna fóstureyðingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert