Joe Biden tryggir sér tilnefningu Demókrata

Það virðist allt stefna í kosningar á milli Biden og …
Það virðist allt stefna í kosningar á milli Biden og Trump á nýjan leik. AFP/Getty Images/Megan Varner

Joe Biden Bandaríkjaforseti er búinn að tryggja sér yfir helming kjörmanna í boði í forvali Demókrata og þar með búinn að tryggja sér óformlega forsetatilnefningu flokksins.

Fastlega er gert ráð fyrir því að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tryggi sér einnig óformlega tilnefningu Repúblikanaflokksins í nótt.

Kosið var í forvali Demókrata og Repúblikana í dag í Georgíu-ríki, Mississippi-ríki og Washington-ríki. Þá er einnig forkosning í Havaí. Beðið er eftir tölum úr öllum ríkjum en fastlega er gert ráð fyrir að Trump tryggi sína tilnefningu í nótt þegar tölur fara að berast úr Mississippi, Washington og Havaí.

Kjörmennirnir tilnefna formlega mennina á landsfundum flokkanna í sumar, en nú er því nær slegið föstu að mennirnir muni mætast á ný í forsetakosningunum 5. nóvember.

The Associated Press greinir frá.

Siglir tilnefningunni líklega í höfn í nótt

Joe Biden þurfti 1.968 kjörmenn og er kominn yfir þá tölu. Donald Trump þarf 1.215 kjörmenn og er á góðri leið með að ná þeirri tölu í nótt.

Var hann rétt í þessu að fá 59 kjörmenn úr Georgíu og vantar því aðeins 67 kjörmenn til viðbótar. Það standa enn til boða 102 kjörmenn í kvöld frá Mississippi, Washington og Havaí.

Aðeins 38% Bandaríkjamanna eru sáttir með hvernig Biden sinnir starfi sínu sem forseti á sama tíma og 61% eru ósáttir, samkvæmt nýlegri könnun frá The Associated Press.

Samkvæmt Real Clear Polling þá leiðir Trump Biden með tæplega tveimur prósentustigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert