Ræddu saman í fyrsta sinn í mánuð

Joe Biden hefur í auknum mæli lýst áhyggjum sínum af …
Joe Biden hefur í auknum mæli lýst áhyggjum sínum af áhrifum stríðsins á óbreytta borgara, AFP/Jim Watson

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ræddu saman fyrr í dag. Er þetta fyrsta samtal þeirra tveggja í meira en mánuð eftir því sem best er vitað.

Í símtalinu ræddu leiðtogarnir tveir nauðsyn þess að koma mannúðaraðstoð til Gasa og yfirvofandi aðgerðir Ísraela í Rafah, þar sem meira en milljón óbreyttra Palestínumanna hefur leitað skjóls.

Bandaríkjamenn áhyggjufullir

Biden lýsti áhyggjum sínum af áformum Ísraela um aðgerðir á jörðu niðri í Rafah. Borgin er síðasta stóra borg­in á Gasa­svæðinu þar sem her­menn hafa ekki hafið hernað á jörðu niðri. 

Þá bætti hann við að sókn Ísraela á svæðinu yrðu „mistök“.

Netanjahú hefur fallist á beiðni Biden um að senda sendinefnd háttsettra ísraelskra embættismanna til Washington til að ræða áætlanir og mögulegar aðrar aðferðir fyrir Ísraela að ná markmiðum sínum. Þetta staðfesti Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi forsetans.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Samband leiðtoganna tveggja hefur versnað

Að símtalinu loknu gaf Netanjahú út yfirlýsingu þar sem hann kvaðst hafa sagt Biden að Ísrael væri staðráðið í að ná markmiðum sínum á Gasa en jafnframt að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð á svæðinu.

Netanjahú segir markmið Ísraels vera að útrýma Hamas, frelsa alla gísla og „tryggja að Gasa muni aldrei vera ógn við Ísrael“.

Ísrael stendur frammi fyrir miklum alþjóðlegum þrýstingi til að draga úr aðgerðum sínum á Gasa. Tæplega 32 þúsund manns hafa verið drepnir á Gasa síðan stríðið hófst að sögn yfirvalda á svæðinu.

Samband Biden og Netanjahú hefur versnað mikið undanfarna mánuði. Gremja innan Hvíta hússins hefur aukist verulega í kjölfar þess, sem bandarískir embættismenn segja, höfnun Netanjahú á ráðleggingum Bandaríkjanna um stríðið.

Í byrjun átakanna töluðu leiðtogarnir tveir saman daglega eða vikulega. Síðasta símtal þeirra fyrir daginn í dag var 15. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert