Vínarferli virkjað vegna mannréttindabrota í Rússlandi

Ráðuneytið segir að aðdragandi aðgerðarinnar sé ekki síst meðferð rússneskra …
Ráðuneytið segir að aðdragandi aðgerðarinnar sé ekki síst meðferð rússneskra stjórnvalda á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. AFP

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin áttu frumkvæði að því að Vínarferli Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) var virkjað í dag, vegna mannréttindabrota og frelsisskerðinga í Rússlandi, m.a. vegna óréttmætra fangelsana og illrar meðferðar á pólitískum föngum.

Að endingu stóðu 41 ríki að virkjun ferlisins , sem gerir aðildarríkjum kleift að krefjast svara frá rússneskum stjórnvöldum um úrbætur í mannréttindamálum á grundvelli samþykkta og tilmæla ÖSE, að því er utanríkisráðuneytið greinir frá. 

Fram kemur, að Ísland hafi verið í hópi 38 ríkja sem virkjuðu Moskvuferli ÖSE í júlí árið 2022, vegna mannréttindabrota í Rússlandi sem hratt af stað óháðri rannsókn á vegum Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR). Niðurstöður hennar leiddu í ljós umfangsmikil og kerfisbundin mannréttindabrot, þvert á alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar Rússlands, m.a. á grundvelli samþykkta og tilmæla ÖSE. 

„Í ljósi ófullnægjandi viðbragða rússneska stjórnvalda við niðurstöðum rannsóknar ODIHR, áframhaldandi mannréttindabrota og vaxandi fjölda óréttmætra fangelsana af pólitískum ástæðum, var talið brýnt að virkja Vínarferlið, til að láta í ljós þungar áhyggjur af aðgerðum rússneskra stjórnvalda, sem ganga í berhögg við skuldbindingar aðildarríkja ÖSE, og krefja rússnesk stjórnvöld svara. 

Aðdragandi þessarar aðgerðar er ekki síst meðferð rússneskra stjórnvalda á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní, sem fangelsaður var í janúar 2021 og lést í haldi þeirra fyrr á árinu,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert