Níger í Kremlarfaðm

Abdourahamane Tiani, hershöfðingi og höfuð herforingjastjórnarinnar í Níger ræddi símleiðis …
Abdourahamane Tiani, hershöfðingi og höfuð herforingjastjórnarinnar í Níger ræddi símleiðis við Vladimír Pútín í gær. Samsett mynd

Abdourahamane Tiani, hershöfðingi og höfuð herforingjastjórnarinnar í Níger ræddi símleiðis við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í gær.

Erindið var að styrkja öryggissamvinnu ríkjanna tveggja, að því er greint var frá í tilkynningu.

Samband ríkjanna æ þéttara

Þegar í janúar var byrjað að styrkja samband ríkjanna tveggja. Þá fór forsætisráðherra Níger, Ali Lamine Zeine, fyrir sendinefnd til Moskvu.

Níger er eitt fátækasta ríki heims og hefur tekið þátt í baráttu Vesturlanda til að koma böndum á erjur vígamanna í Suður-Sahara. Níger hefur nú leitað æ meir til Rússlands í kjölfar þess að lýðræðislega kjörnum forseta landsins var steypt af stóli.

Í tilkynningu eftir fundinn var þess einnig getið að ríkin tvö hefðu rætt „verkefni sem miði að strategískri samvinnu sem nái yfir fjölda sviða,“ án þess þó að frekari skýring væri gefin á því við hvað væri átt.

Tiani hershöfðingi þakkaði Pútín fyrir það að Rússland hefði stutt landið í baráttunni við að viðhalda fullveldi sínu.

Vesturveldum skipt út fyrir Rússland

Bandaríkjamenn hafa um eitt þúsund hermenn undir vopnum í Níger en aðgerðir þeirra hafa verið takmarkaðar eftir valdaránið í júlí. Stjórnvöld í Washington hafa skrúfað fyrir allan stuðning til stjórnvalda í Níger.

Bandaríkjamenn gerðu út sendinefnd til landsins fyrir skemmstu til þess að koma á tengslum á ný en tókst þó ekki að hitta Tiani hershöfðingja. Herforingjastjórnin hefur tekið dræmt í áframhaldandi hernaðarsamtarf með Vesturveldum og leggur áherslu á að skera á nýlendutengsl við Frakkland.

Níger hafði fram til þessa lengi verið mikilvægur bandamaður Frakka í baráttunni við íslamska vígamenn sem halda sig í Suður-Sahara.

Gengu út úr ECOWAS

Níger hefur gengið til liðs við nágrannaríki sín Malí og Búrkína Fasó til að mynda sameiginlegt herlið sem berjast eigi við íslamska vígamenn sem herjað hafa á ríkin þrjú.

Fyrr á árinu tilkynntu þau að þau myndu jafnframt hætta þátttöku í efnahagsbandalagi Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert