Skömmuð fyrir að vera án brjóstahaldara og krefst fundar

Gloria Allred lögmaður ræðir við blaðamenn. Mynd úr safni.
Gloria Allred lögmaður ræðir við blaðamenn. Mynd úr safni. AFP/Robyn Beck

Kona sem segir að sér hafi verið hótað brottvísun úr flugferð bandaríska flugfélagsins Delta, sökum þess að hún var ekki í brjóstahaldara, krefst nú fundar með forstjóra flugfélagsins.

Segir hún mismunun felast í stefnu flugfélagsins, sem hafi lýst sér með þessum hætti.

Konan, að nafni Lisa Archbold, kveðst hafa verið í laussniðnum gallabuxum og víðum hvítum bol, án brjóstahaldara, þegar hún fór um borð í farþegaþotu félagsins.

Í kjölfarið hafi kvenkyns innritunarstarfsmaður fylgt henni út úr vélinni og krafist þess að hún hyldi sig.

Skömmuð fyrir utan flugvélina

„Mér leið eins og þetta væri eitthvað sjónarspil í því skyni að refsa mér, fyrir að vera ekki eins kona og henni fannst að ég ætti að vera, þegar hún skammaði mig fyrir utan flugvélina,“ sagði hún við blaðamenn í Los Angeles í dag.

Archbold, sem er plötusnúður og var á leið frá Salt Lake City í Utah til San Francisco, segir starfsmanninn hafa kallað klæðnað hennar djarfan og dónalegan. Það væri stefna flugfélagsins að hleypa ekki um borð þeim farþegum sem klæddu sig svona.

Ef hún klæddist jakka utan yfir bolinn, þá fengi hún að fara um borð, hefur Archbold eftir starfsmanninum.

Karlkyns farþegum ekki skylt að hylja sig

Gloria Allred, lögmaður Archbold, er þekkt fyrir að taka að sér stór og umdeild mál. Tjáði hún blaðamönnum að hún hefði skrifað bréf fyrir hönd skjólstæðings síns þar sem krafist er fundar með forstjóra flugfélagsins, til að ræða stefnu þess.

„Karlkyns farþegum er ekki gert skylt að hylja boli sína með skyrtu eða jakka,“ sagði hún.

„Þeir þurfa heldur ekki að klæðast brjóstahaldara til að fara um borð eða vera í flugvél, og konur ættu ekki að þurfa þess heldur,“ bætti hún við.

„Síðast þegar ég vissi, þá stýrðu talíbanarnir ekki Delta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert