Myrti dóttur sína og talin hafa drepið systur hennar

Hin 35 ára gamla Roula Pispirigou var dæmd í lífstíðarfangelsi …
Hin 35 ára gamla Roula Pispirigou var dæmd í lífstíðarfangelsi í Aþenu í dag. AFP/Aris Messinis

Grískur dómstóll hefur dæmt konu í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða níu ára dóttur sína. Hún er einnig grunuð um að hafa myrt tvær aðrar dætur sínar.

Mál hinnar 35 ára gömlu Roulu Pispirigou hefur vakið mikla reiði meðal almennings í Grikklandi. Hún er lærður hjúkrunarfræðingur. 

Skömmu eftir að hún var handtekin var óeirðarlögregla staðsett fyrir utan dómstólinn í Aþenu þar sem hópur fólks safnaðist saman og hrópaði ókvæðisorðum að henni. 

Hafði áður reynt að myrða Georginu

Pispirigou var dæmd fyrir manndráp af ásettu ráði vegna dauða hinnar níu ára gömlu Georginu. 

Þá er hún einnig grunuð um að hafa orðið þriggja dóttur sinni Malenu að bana árið 2019 og hinni sex mánaða gömlu Iris árið 2021. 

Georgina lést 29. janúar árið 2022 eftir að móðir hennar eitraði fyrir henni með ketamíni. Efnið er meðal annars notað til að svæfa dýr. 

Á síðustu tíu mánuðunum í lífi Georginu var hún nokkrum sinnum lögð inn á sjúkrahús vegna krampa sem leiddu til þess að hún lamaðist fyrir neðan háls.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að móðirin hefði reynt að myrða Georginu að minnsta kosti einu sinni er hún lá inni á sjúkrahúsi.

Pispirigou neitar sök.
Pispirigou neitar sök. AFP/Aris Messinis

Voru kæfðar

Malena var talin þjást af bráðri lifrabilun sem olli dauða hennar. Dánarorsök Irisar var talin vera hjartabilun.

Eftir að Georgina lést voru lík Malenu og Irisar rannsökuð nánar og kom þá í ljós að þær hefðu verið kæfðar. 

Pispirigou er frá vesturhluta Grikklands og hefur staðfastlega neitað sök frá því að réttarhöldin hófust í janúar í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert