Yfir 50 þúsund flúið borgina

Vopnaðir lögreglumenn sjást hér á verði í höfuðborginni í lok …
Vopnaðir lögreglumenn sjást hér á verði í höfuðborginni í lok mars. AFP

Rúmlega 50.000 hafa flúið óöldina sem hefur ríkt undanfarið í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, en þar hafa glæpagengi gert árásir, m.a. á lögreglustöðvar. Sameinuðu þjóðirnar greina frá þessu. 

Alþjóðlega fólksflutningastofnunin, IOM, segir að á milli 8. og 27. mars hafi 53.125 einstaklingar yfirgefið borgina. Sá fjöldi bætist við um 116.000 manns sem hafa þegar misst heimili sín. 

Meirihluti þeirra sem hafa yfirgefið borgina segjast vera að flýja ofbeldi og óöryggi að sögn IOM. 

Stofnunin bendir á í nýrri skýrslu að önnur héruð og svæði á Haítí búi ekki yfir sömu innviðum til að taka á móti svona mörgu fólki. 

Ráðist á fangelsi, lögreglustöðvar og flugvöll

Ofbeldisverk glæpagengja hófust fyrir alvöru í febrúar þegar gengi hófu með sér samstarf og gerðu árásir á lögreglustöðvar, fangelsi, flugvöll borgarinnar og hafnarsvæðið. 

Glæpahóparnir vilja koma Ariel Henry, forsætisráðherra landsins, frá völdum, en hann tók við völdum eftir að forseti landsins, Jovenel Moise, var myrtur árið 2021. Síðan þá hefur enginn nýr forseti verið kjörinn og ekkert þing starfandi, en síðustu þingkosningar fóru fram árið 2016. 

Undanfarna áratugi hafa íbúar landsins mátt þola allskyns hörmungar, glímt við fátækt og náttúruhamfarir. Að auki hefur ríkt pólitískur óstöðugleiki og glæpahópar valdið usla. Það var til að bæta gráu ofan á svart þegar Moise lést og óstöðugleikinn jókst. 

Mikil óöld hefur ríkt í landinu vikum saman eftir að …
Mikil óöld hefur ríkt í landinu vikum saman eftir að glæpagengi ákváðu að taka höndum saman. AFP

Ástandið mjög slæmt

Mikil mannúðarkrísa ríkir í landinu eftir átök glæpahópanna, skortur er á matvælum og heilbrigðisinnviðir í algjörum molum í landinu sem er eitt það fátækasta á vesturhveli jarðar. 

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs höfðu 1.554 látist og 826 særst í átökunum, að því er segir í annarri skýrslu sem SÞ gerði nýverið. SÞ segir að ástandið í landinu sé mjög alvarlegt. 

Í skýrslunni er fjallað um hvernig kynferðisofbeldi er beitt grimmilega. Konur eru m.a. þvingaðar til kynlífsathafna með liðsmönnum gengjanna, gíslum er nauðgað og konur hafa þurft að fylgjast með þegar eiginmenn þeirra hafa verið teknir af lífi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert