Stærsti jarðskjálftinn í 25 ár

Neðanlestarsamgöngur í Taípei, höfuðborg Taívan-eyju, fóru úr skorðum vegna skjálftans, …
Neðanlestarsamgöngur í Taípei, höfuðborg Taívan-eyju, fóru úr skorðum vegna skjálftans, sem fannst vel um alla eyjuna. AFP/CNA

Mjög harður jarðskjálfti varð við norðausturströnd eyjunnar Taívan um eittleytið í nótt. Mældist skjálftinn 7,4 að stærð og voru gefnar út flóðbylgjuviðvaranir víða um Kyrrahaf í kjölfar skjálftans.

Ekki er ljóst hversu mikið tjón hefur orðið af völdum skjálftans, en talið er að nokkur hús hafi hrunið í Hualien, borginni sem er næst skjálftanum.

Skjálftinn varð um níuleytið um morguninn að staðartíma, og sagði Wu Chien-fu, forstöðumaður jarðskjálftamiðstöðvar eyjunnar, að þetta væri sterkasti skjálftinn sem hefði skollið á eyjunni frá árinu 1999. Í september það ár varð jarðskjálfti að stærðinni 7,6 og fórust um 2.400 manns af völdum náttúruhamfaranna.

Wu sagði jafnframt að skjálftinn hefði verið mjög nálægt landi og að hann hefði fundist um alla Taívan-eyju og á úteyjunum sem eru undir valdi yfirvalda þar. Hafa minnst sjö eftirskjálftar greinst þegar þetta er ritað.

Flytja fólk á brott

Stjórnvöld á Filippseyjum gáfu út viðvörun vegna flóðbylgju, Tsunami, í kjölfar skjálftans og hófu að flytja fólk á brott frá þeim svæðum þar sem bylgjan gæti lent á eyjunum. Var varað við því að gríðarháar öldur væru á leiðinni vegna skjálftans og íbúum við ströndina því fyrirskipað að færa sig upp á hálendi.

Helsti flugvöllurinn á Okinawa-eyju lokaði vegna skjálftans, en talið er að flóðbylgjan muni einnig hafa mikil áhrif þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert