Hækkun sjávarhita geti haft hrikalegar afleiðingar

Al­bert, fursti af Mónakó, í ræðustól á ráðstefnunni í Barcelona.
Al­bert, fursti af Mónakó, í ræðustól á ráðstefnunni í Barcelona. AFP

Vísindamenn á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem lauk í Barcelona á Spáni í dag, hvöttu til frekari rannsókna á mikilli hækkun sjávarhita sem þeir vara við að gæti haft hrikalegar afleiðingar.

„Breytingarnar gerast svo hratt að við náum ekki að halda í við áhrifin,“ segir Vidar Helgesen, framkvæmdastjóri haffræðinefndar UNESCO, við AFP-fréttaveituna.

Á fundinum komu saman um 1.500 vísindamenn og fulltrúar ríkisstjórna og umhverfissamtaka til að ræða verndun hafsins.

Loftslagseftirlit Evrópusambandsins, sem kennt er við Kópernikus, segir að meðalhiti yfirborðs sjávar í mars hafi verið 21 gráða sem er nýtt met.

Getur ekki tekið hitann í sig óendanlega

„Hafið hefur miklu meiri varmagetu en andrúmsloftið. Það gleypir miklu meiri hita en það getur ekki tekið hann í sig að óendanlega,“ segir Cristina Gonzalez Haro, vísindamaður við Hafvísindastofnun Barcelona.

Yfir 90 prósent af heimshöfunum upplifðu hitabylgjur árið 2023, sem höfðu bein áhrif á loftslag og vistkerfi um allan heim, jafnvel þau sem eru staðsett langt frá höfum, samkvæmt Alþjóðaveðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna (WMO).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert