Sjö fórust í sprengingu í orkuveri

Björgunarmenn að störfum.
Björgunarmenn að störfum. AFP

Björgunarmenn á Norður-Ítalíu fundu í dag lík síðasta verkamannsins sem saknað var eftir sprengingu í Enel Green-orkuverinu í norðurhluta Bologna-héraðs sem varð á þriðjudaginn á um 40 metra dýpi undir vatnsborði.

Sjö fórust í sprengingunni og staðfestir Luca Cari, talsmaður slökkviliðsins, við AFP að að allir starfsmennirnir sem saknað var eftir sprenginguna á þriðjudaginn hefðu nú fundist. Þrjú lík fundust í gær.

Fjórir særðust og tveir í alvarlegu ástandi

Fjórir aðrir starfsmenn sem slösuðust í sprengingunni eru nú á sjúkrahúsi og tveir þeirra eru enn í alvarlegu ástandi.

Orsök sprengingarinnar í Bargi-verksmiðju Enel Green Power við Suviana-vatn nálægt Bologna er enn óljós en í yfirlýsingu frá fyrirtækinu kemur fram að unnið hafi verið að því að auka skilvirkni verksmiðjunnar. Saksóknarar á Norður-Ítalíu hafa hafið rannsókn á slysinu.

Fyrirtækið greindi frá því í vikunni að stofnaður hefði verið tveggja milljóna evra sjóður fyrir brýnar þarfir fórnarlamba og fjölskyldna þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert