Fordæma yfirvofandi árás

Forsætisráðherra Bretlands Rishi Sunak hefur fordæmt yfirvofandi árás Írans á …
Forsætisráðherra Bretlands Rishi Sunak hefur fordæmt yfirvofandi árás Írans á Ísrael. AFP/Henry Nicholls

Utanríkisráðherra Frakklands, Stephane Sejourne, hefur fordæmt yfirvofandi loftárás Írans á Ísrael. Eins hefur forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, fordæmt árásina og segir hana vera til þess fallna auka óstöðugleika í Mið-Austurlöndum. 

Aukning á óstöðugleika

„Með þessari fordæmalausu ákvörðun hefur Íran aukið eigin óstöðugleika og hætta er á að það verði stigmögnun í stríðsátökum,“ sagði Sejourne og ítrekaði stuðning Frakklands við Ísrael. 

Sunak tók í sama streng og sagði Íran vera að hvetja til óstöðugleika á svæðinu. 

„Í samstarfi með bandamönnum okkar erum við að vinna að því að ná ró á ástandið og að koma í veg fyrir frekari stigmögnun á átökunum,“ sagði Sunak.

ESB fordæmir árásina

Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Josep Borrell, hefur einnig fordæmt árásina. Hann lýsir henni sem fordæmalausri stigmögnun á ástandinu. 

„ESB fordæmir af hörku óásættanlega árás Írans á Ísrael,“ sagði hann á samskiptamiðlinum X.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert