Síðasta verk hennar að rétta barnið frá sér

Ashlee Good var eitt fórnarlamba árásarinnar.
Ashlee Good var eitt fórnarlamba árásarinnar.

Ashlee Good, 38 ára gömul móðir, var ein þeirra sem lést þegar hnífamaður gekk berserksgang í verslunarmiðstöð í Ástralíu í gær. Sex létust í árásinni og átta voru fluttir á sjúkrahús. Meðal hinna særðu var níu mánaða gamalt barn hennar.

Eftir að Good hafði verið stungin var það hennar síðasta verk að rétta barnið manni sem var að flýja af vettvangi. Maðurinn sem tók við barninu segir að hann hafi óttast það versta sökum þess að barninu blæddi mikið. 

Segir hann í samtali við Nine News-fréttastofuna að hann hafi notast við klæði sín og bróður síns til að halda þrýstingi á sári barnsins. Voru þeir á hlaupum samhliða því að halda þrýstingu á sárinu. 

Komust þeir í öruggt skjól og hringdu þá á sjúkrabíl. Betur fór en á horfðist og reyndust sár barnsins ekki lífshættuleg og er það á batavegi. 

Andleg veikindi

Maðurinn sem framkvæmdi árásina heitir Joel Cauchi og stóð á fertugu. Lögreglukona felldi hann eftir að hann gerði sig líklegan til að veita henni áverka. Lögregla telur allar líkur á því að hann hafi glímt við geðræn vandamál en Cauchi hafði áður glímt við andleg veikindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert