Þurfa fjölskylduvænni her

Norski sjóherinn má eiga von á 40 prósentum myndarlegs fjárframlags …
Norski sjóherinn má eiga von á 40 prósentum myndarlegs fjárframlags norskra stjórnvalda sem nemur í heildina um 7.800 milljörðum íslenskra króna. Ljósmynd/Norski sjóherinn

Óánægja með launakjör, lífeyrismál og starfsframamöguleika er meðal þess sem orsakar atgervisflótta í norska hernum sem nú horfir til vandræða og hefur norska ríkisstjórnin því lofað hernum 600 milljarða króna fjárveitingu yfir tólf ára tímabil en sú upphæð svarar til tæplega 7.800 milljarða íslenskra króna.

„Við hyggjumst gefa fólki færi á fyrirsjáanlegri vinnudegi og auka jafnvægið milli vinnu og frítíma,“ segir Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra við norska dagblaðið VG en reiknað er með að fjölgað verði í norska hernum um 4.600 manns á næstu árum sem er töluvert í ljósi þess að 18.000 hermenn annast nú varnir landsins.

Þá hafa norsk stjórnvöld lofað sjóhernum fimm eða sex nýjum kafbátum, jafn mörgum nýjum freigátum og fjölda minni sjófara.

Skýr skilaboð til þjóðarinnar

Oliver Berdal aðmíráll er æðsti yfirmaður sjóhersins og bíður hans það verkefni á næstu árum að halda í sitt besta fólk samtímis því að ráða inn nýtt auk þess að færa núverandi flota Noregs í glænýjan búning sem þó er – enn sem komið er – aðeins á þingsályktunarstigi í norska Stórþinginu.

„Við í sjóhernum erum ákaflega heppin með að hefja þessa nýju áætlun með þeim úrvalsmannskap sem við höfum úr að spila,“ segir Berdal við VG en nærri lætur að 40 prósent af fjárveitingu stjórnarinnar falli sjóhernum í skaut. „Það gleður mig að ríkisstjórnin tali tæpitungulaust, það sendir skýr skilaboð til þjóðarinnar og starfsmanna hersins um að nú verði verkin látin tala,“ heldur hann áfram.

Ekki síður kveður hann það mikilvægt að með komandi umbreytingu hersins séu Rússum send skýr skilaboð um að Norðmenn geri það sem til þurfi til að verja hendur sínar.

Stofna fjölskyldu og fara að litast um

„Þeir sem starfa í sjóhernum eru undir mikilli pressu og hafa verið lengi,“ segir Robert Hansen við blaðamann VG. Hansen er yfiröryggistrúnaðarmaður sjóhersins og segir nú komið að sársaukamörkum eftir mörg ár af niðurskurði og hagræðingu. Vel gangi að fá ungt fólk í herinn en þegar sá tími komi í lífi hvers og eins að farið sé að stofna til fjölskyldu og eignast börn fari fólk gjarnan að líta í kringum sig eftir einhverju fjölskylduvænna en her.

Nái herinn að bæta ráð sitt á þeim vettvangi auk þess að styðja við sitt fólk svo til dugi sé björninn unninn. „Þá verður sjóherinn í stakk búinn til að takast á við áskoranir dagsins og framtíðarinnar,“ segir yfiröryggistrúnaðarmaðurinn að lokum.

VG

NRK

NRKII (knippi nokkurra frétta af hermálum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert