Kíghósti breiðist út í Tékklandi: Þrír látnir

Íbúar Zagreb gangast undir skimun fyrir kíghósta. Myndin er tekin …
Íbúar Zagreb gangast undir skimun fyrir kíghósta. Myndin er tekin í nóvember síðastliðnum eftir að faraldur braust þar út. AFP

Tilfellum kíghósta hefur fjölgað snarlega í Tékklandi á þessu ári og hafa þrír þegar látist af völdum sjúkdómsins. Frá þessu greina heilbrigðisyfirvöld þar í landi í dag.

Í ríkinu búa um 10,9 milljónir manna og hafa 7.888 tilfelli sjúkdómsins verið færð til bókar á þessu ári. Þar af greindust í síðustu viku 1.494 tilfelli.

Inni á sjúkrahúsum liggja 183 manns með kíghósta.

Útbreiðslan er sú mesta frá því árið 1959, þegar bólusetningar hófust við bakteríusýkingunni sem veldur sjúkdómnum.

Nýburi á meðal þeirra látnu

Bólusetningarskylda er í landinu, en bólusetningin varir ekki út ævina auk þess sem sumir hafna bólusetningu.

Táningar hafa orðið verst úti, þar sem foreldrar þeirra hundsa oft þá endurbólusetningu sem mælt er með fyrir börn á aldrinum 10-11 ára.

Þrír hafa látist af völdum sjúkdómsins á árinu eins og áður sagði: 62 ára karlmaður, 84 ára kona og nýburi. Öll voru þau veik fyrir sökum annarra heilsukvilla.

Tveir greinst hér á landi

Greint var frá því á fimmtudag að tveir hefðu greinst með kíghósta hér á landi í mánuðinum.

Útbreiðsla sjúk­dóms­ins í heim­in­um hef­ur farið vax­andi síðustu 20 ár og er sjúk­dóm­ur­inn land­læg­ur í sum­um lönd­um.

„Kíg­hósti er al­var­leg önd­un­ar­færa­sýk­ing hjá börn­um, einkum á fyrstu mánuðum æv­inn­ar. Hjá ung­ling­um og full­orðnum ein­kenn­ist sjúk­dóm­ur­inn af langvar­andi og þrá­lát­um hósta og kve­f­ein­kenn­um,“ segir á vef landlæknis.

„Ung­um börn­um á fyrstu 6 mánuðum æv­inn­ar er sér­lega hætt við al­var­leg­um af­leiðing­um kíg­hósta, meðal ann­ars slæm­um hósta­köst­um og önd­un­ar­stoppi og get­ur sjúk­dóm­ur­inn verið þeim lífs­hættu­leg­ur. Smit berst á milli manna með úða frá önd­un­ar­fær­um.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert