Styttist í refsiákvörðun í voðaskotsmáli

Hannah Gutierrez-Reed bíður nú refsiákvörðunar en myndskeið sem leit dagsins …
Hannah Gutierrez-Reed bíður nú refsiákvörðunar en myndskeið sem leit dagsins ljós við rannsókn voðaskotsmálsins gæti dregið dilk á eftir sér. AFP/Luis Sánchez Saturno

Allt að átján mánaða fangelsisvist bíður umsjónarmanns skotvopna og skotfæra á tökustað kvikmyndarinnar Rust, Hannah Gutierrez-Reed, þar sem kvikmyndatökumaðurinn Halynu Hutchins beið bana 21. október 2021 þegar leikarinn Alec Baldwin hleypti af voðaskoti en sjálfur bíður Baldwin réttarhalda sem hefjast í júlí.

Verður dómur yfir Gutierrez-Reed kveðinn upp í dag fyrir ríkisdómstól í New Mexico-ríki í Bandaríkjunum en verjendur hennar hafa sveist blóðinu við að sannfæra dómendur um hve alvarlegt glappaskot það væri að velja skotvopnaumsjónarmanninum þunga refsingu, Gutierrez-Reed sé ung kona sem nú þegar losni aldrei undan umtali um það sem gerðist októberdaginn örlagaríka og dómur fyrir alvarlegt afbrot (e. felony) muni hafa áhrif á alla framtíð hennar.

Grét stanslaust

Kari Morrissey, sérstakur saksóknari í málinu, fór þess á leit við dómarann að hann dæmdi Gutierrez-Reed til þyngstu refsingar sem lög leyfa og byggi auk þess þannig um hnútana að henni yrði ókleift að sækja um refsilækkun síðar meir.

Vitni við aðalmeðferð málsins, þar á meðal æskuvinur og fyrrverandi kærasti Gutierrez-Reed, hafa keppst við að sannfæra dóminn um hve niðurbrotinn sakborningurinn var eftir atvikið og sagði æskuvinurinn í skriflegum vitnisburði að ákærða hefði grátið stanslaust eftir voðaskotið.

Allt gæti þetta þó þotið sem vindur um eyru þegar kemur að því að kjósa skotvopnaumsjónarmanninum örlög innan refsivörslukerfisins vegna myndskeiðs frá öldurhúsi í Santa Fe í New Mexico sem kom fram í dagsljósið við rannsókn málsins en þar gerði Gutierrez-Reed upptöku af sjálfri sér þar sem hún sést bera skotvopn inn fyrir dyr öldurhússins, nokkuð sem er stranglega bannað með lögum í öllum ríkjum Bandaríkjanna.

The Guardian

Hollywood Reporter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert