Mikið óveður við Persaflóa og 18 látnir í Óman

Vatn hefur víða flætt yfir vegi í Dúbaí.
Vatn hefur víða flætt yfir vegi í Dúbaí. AFP

Mikið óveður hefur geisað við Persaflóa síðasta sólarhringinn og hafa að minnsta kosti 18 manns látið lífið af völdum þess í Óman.

Óveðrinu fylgdi gríðarlegt vatnsveður og mikill stormur og þurfti um stundarsakir að stöðva starfsemi á flugvellinum í Dúbaí en aflýsa þurfti meira en 50 flugferðum.

Dúbaí, fjármálamiðstöð Miðausturlanda, lamaðist um tíma og mikil flóð hafa verið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og í Barein og þá flæddi vatn inn í verslunarmiðstöðvarnar Dubaí Mall og Mall of the Emirates. Þá var ökkladjúpt vatn á að minnsta kosti í einni neðanjarðarlest í Dúbaí.

Skólum var lokað víðs vegar um Sameinuðu arabísku furstadæmin og búist er við að þeir verði áfram lokaðir á morgun þegar spáð er frekari stormi og jafnvel hagléli. Á sumum svæðum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum mældist úrkoman yfir 80 millimetrar á einum sólarhring.

Frá Barein.
Frá Barein. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert