Ofsóttur innan veggja Boeing

Sam Salehpour, verkfræðingur hjá Boeing, kom fyrir þingnefnd á Bandaríkjaþingi …
Sam Salehpour, verkfræðingur hjá Boeing, kom fyrir þingnefnd á Bandaríkjaþingi í gær og greindi frá því hvernig hann hefði sætt ofsóknum innan fyrirtækisins fyrir að vekja athygli á brotalöm í öryggismálum. Út á við segir Boeing í yfirlýsingu að slíkt sé harðbannað og fyrirtækið fagni öllum ábendingum um það sem betur mætti fara. Salehpour hefur aðra sögu að segja. AFP/Kent Nishimura

Sam Salehpour, verkfræðingur hjá Boeing-flugvélaverksmiðjunum, ljóstraði því upp fyrir bandarískri þingnefnd í gær að hann hefði sætt áreiti og hótunum af hálfu yfirmanna sinna og samstarfsmanna eftir að hann vakti opinbera athygli á brotalöm á öryggismálum farþegaflugvéla þessa stærsta flugvélaframleiðanda heims sem veltir tæpum 67 milljörðum dala ár hvert og hefur á 140.000 starfsmönnum að skipa.

„Við vitum að við eigum mikið verk fyrir höndum og við erum að bregðast við því um gervallt fyrirtækið,“ sagði í yfirlýsingu frá Boeing í kjölfar þingnefndarfundarins áðurnefnda sem meðal annars spratt af því atviki þegar hluti skrokks glænýrrar Boeing 737 Max 9-farþegaþotu Alaska Airlines brotnaði af við flugtak í janúar.

Sluppu farþegar þeirrar vélar með skrekkinn en atvikið leiddi til aflýsinga mörg þúsund flugferða Boeing-véla sem rifjaði þegar upp sársaukafull stórslys Max 8-véla árin 2018 og '19 sem urðu samtals 346 manns að aldurtila.

Sagt að þegja

Yfirlýsing Boeing hljómaði nógu auðmjúklega út á við – innan veggja flugvélaframleiðandans var raunin hins vegar önnur. Þar var allt á suðupunkti og Salehpour fékk að heyra það frá yfirmönnum sínum, þar af einum sem hringdi í hann og las honum pistilinn í 40 mínútur. Þá var nöglum stungið í hjólbarða bifreiðar hans á stæði við starfsstöð hans hjá Boeing.

Vitnið Joe Jacobsen, verkfræðingur og tæknilegur ráðgjafi Flugöryggisstofnunar Bandaríkjanna, Foundation …
Vitnið Joe Jacobsen, verkfræðingur og tæknilegur ráðgjafi Flugöryggisstofnunar Bandaríkjanna, Foundation for Aviation Safety, ber vitni fyrir þingnefndinni í gær. Jacobsen var ómyrkur í máli þegar hann sagði að kyrrsetja ætti allar Boeing 787-flugvélar og fara rækilega yfir ástand þeirra. AFP/Kent Nishimura

Salehpour á að baki sautján ára starf hjá flugvélaframleiðandanum og lagði það fúslega fram fyrir þingnefndinni að honum hefði einfaldlega verið „sagt að þegja“ eftir að hann tók að benda á alvarlega annmarka á öryggismálum framleiðslunnar – farþegavéla sem flytja milljónir farþega hvert ár.

„Ég var hunsaður, mér var sagt að vera ekki að búa til tafir,“ segir Salehpour sem var færður til í starfi eftir að hann byrjaði að vera með það sem stjórnendur Boeing töldu leiðindi. Þeir þurftu að standa skil á sínu gagnvart hluthöfum, líklega hörðustu húsbændum vestræns atvinnulífs.

Alvarlegt – jafnvel áfall

„Þar ríkir ekki öryggismenning [e. safety culture] sem þér er álasað fyrir að vekja máls á hlutum,“ segir verkfræðingurinn en öldungadeildarþingmaðurinn Richard Blumenthal, sem stjórnaði vitnaleiðslum fyrir nefndinni, fór ekki í neinar grafgötur með alvarleika málsins og sagði frásögn Salehpours grafalvarlega, jafnvel áfall. Kallaði hann framburðinn fyrir nefndinni „augnablik uppgjörsins“ fyrir Boeing.

Dave Calhoun, stjórnarformaður Boeing, ræðir við blaðamenn í bandaríska þinginu …
Dave Calhoun, stjórnarformaður Boeing, ræðir við blaðamenn í bandaríska þinginu 24. janúar eftir enn eitt alvarlegt atvik tengt 787-vélum Boeing. Calhoun er á förum en Boeing tilkynnti í marslok að hann léti af störfum við lok yfirstandandi árs. AFP/Jim Watson

Talsmenn flugvélaframleiðandans kannast hins vegar ekki við neinar krossfestingar innan fyrirtækisins. Þar ríki óttalaus tilkynningastefna hvað allar brotalamir varði. Hefnd fyrir að vekja athygli á því sem betur mætti fara sé „stranglega bönnuð“ enda hafi slíkum tilkynningum fjölgað um 500 prósent síðan í janúar.

„Við leggjum áfram öryggi og gæði ofar öllu og miðlum upplýsingum gegnsætt til eftirlitsaðila, viðskiptavina og hluthafa,“ segir í yfirlýsingu Boeing.

CNN

BBC

Fortune

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert