Argentína vill taka þátt í NATO

Javier Milei, forseti Argentínu.
Javier Milei, forseti Argentínu. AFP/Luis Robayo

Stjórnvöld í Argentínu hafa farið fram á aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) sem alþjóðasamstarfsríki.

Beiðnin barst er Mircea Geoana, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, átti fund í Brussel um áskoranir í öryggismálum ásamt Luis Petri, varnarmálaráðherra Argentínu.

ABC greinir frá.

Samstarf sem hagnast báðum

Geoana kvaðst fagna beiðni Argentínu um að verða formlegt samstarfsríki – staða sem ríki utan landsvæðis NATO geta sótt um en felur þó ekki í sér hernaðarþátttöku þeirra verði árás gerð á NATO-ríki.

Myndi slík staða þó leiða til nánara stjórnmála- og öryggissamstarfs á sama tíma Javier Milei, forseti Argentínu, hyggst auka tengsl sín við Vesturlönd og laða að fjárfesta.

Þá gæti Argentína fengið aðgang að háþróaðri tækni, öryggiskerfum og þjálfun sem hefur áður ekki staðið þjóðinni til boða.

„Argentína leikur mikilvægt hlutverk í Rómönsku Ameríku,“ sagði Geoana er hann ræddi við blaðamenn í höfuðstöðvum NATO, og bætti við að nánara pólitískt samstarf myndi hagnast bandalaginu og Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert