Skutu mann sem réðist á þrjár konur

Konurnar sem ráðist var á eru á aldrinum 65-80 ára …
Konurnar sem ráðist var á eru á aldrinum 65-80 ára og fundust þær særðar utandyra AFP/Adam IHSE/TT fréttastofa

Sænska lögreglan skaut og handtók mann sem lögreglan segir að hafi ráðist á þrjár konur með hníf í bænum Västerås.

Konurnar eru á aldrinum 65-80 ára og fundust þær særðar utandyra og voru þær fluttar á sjúkrahús. Í frétt sænska fréttamiðilsins Aftonbladet segir að maðurinn hafi verið vopnaður hnífi er hann var handtekinn.

Þá segir enn fremur að ástand tveggja kvenna sé alvarlegt, en þó stöðugt.

Handtóku hann nálægt vettvangi

„Lögreglan handtók mann nálægt vettvanginum. Í tengslum við handtöku mannsins kom upp atvik og lögreglumaður hleypti af vopni sínu,“ segir í yfirlýsingu sænsku lögreglunnar.

„Maðurinn særðist og var fluttur á spítala. Líðan hans er óljós.“

Aftonbladet segir að maðurinn sé á þrítugsaldri og kunnugur lögreglu vegna fíkniefnabrota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert