450 lögreglumenn leita að byssumönnunum

Franska lögreglan leitar enn að byssumönnunum. Mynd úr safni.
Franska lögreglan leitar enn að byssumönnunum. Mynd úr safni. AFP/Philippe Huguen

Franska lögreglan hefur kallað 450 lögreglumenn til leitar að mönnunum sem drápu tvo fangaverði í gær þegar þeir leystu fanga úr haldi þeirra. Fangans er einnig leitað.

Fangaflutningavagn var við vegtollahlið í Eure-héraði í Norður-Frakklandi þegar stolnum bíl var keyrt á hann að framan.

Byssumenn stigu bæði úr þeim bíl og öðrum sem var fyrir aftan vagninn og byrjuðu að skjóta. Tveir fangaverðir eru látnir og þrír særðir en einn þeirra sem særðist er í lífshættu.

Fyrst var greint frá því að þrír fangaverðir hafi verið drepnir en það reyndist ekki vera rétt.

Fyrsta sinn síðan 1992

Éric Dupond-Moretti, dómsmálaráðherra Frakklands, segir fangaverðina tvo vera þá fyrstu sem hafa látið lífið við skyldustörf í Frakklandi síðan árið 1992.

Annar þeirra var giftur tveggja barna faðir en eiginkona hins var komin fimm mánuði á leið.

Í óreiðunni tókst byssumönnunum einnig að leysa fanga úr haldi sem verið var að flytja frá Rúðuborg og til Evreux í Normandí.

Saksóknarinn Laure Beccuau segir fangann heita Mohamed Amra en hann var í síðustu viku dæmdur fyrir vopnað rán og ákærður fyrir mannrán sem leiddi til andláts.

Alþjóðalögreglan Interpol hefur nú gefið út svokallaða rauða viðvörun vegna Amra, þar sem lýst er eftir honum á alþjóðavísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert