Hvetur Georgíu til að leggja lögin á hilluna

Frá mótmælum í höfuðborginni í gærkvöldi.
Frá mótmælum í höfuðborginni í gærkvöldi. AFP

Volker Turk, mann­rétt­inda­full­trúi Sam­einuðu þjóðanna, hvetur Georgíu til að leggja á hilluna umdeild fjölmiðlalög, um erlend áhrif á georgíska fjölmiðla, sem voru samþykkt á georgíska þinginu í gær. Lögunum hefur verið harðlega mótmælt í landinu. 

Turk segist „harma mjög“ að lögin hafi verið samþykkt. Þau kveða á um að fjöl­miðlar sem sækja meira en 20% fjár­magns síns frá er­lendu ríki verði að skil­greina sig sem fjöl­miðil sem starfar í þágu er­lends rík­is.

„Yfirvöld og löggjafinn hafa kosið að virða að vettugi hinar fjölmörgu viðvaranir mannréttinda- og borgarsamtaka. Það er hætt við að áhrifin á rétt til tjáningar- og félagafrelsis í Georgíu verði umtalsverð,“ segir Turk í yfirlýsingu.  

Volker Turk, mann­rétt­inda­full­trúi Sam­einuðu þjóðanna.
Volker Turk, mann­rétt­inda­full­trúi Sam­einuðu þjóðanna. AFP/Khaled Desouki

Lögin kæfi fjölbreyttar raddir 

Turk segir lögin jafnframt of víðtæk og hætt við að frjáls félagasamtök komi til með að standa frammi fyrir „vantrausti, ótta og fjandskap“.

Þá segir hann ofangreinda kröfu um skráningu fjölmiðla geta haft neikvæð áhrif og dregið verulega úr starfsemi umræddra fjölmiðla í Georgíu. 

„Að kæfa fjölbreyttar raddir um málefni sem varða alvarlega almannahagsmuni mun einungis torvelda getu stjórnvalda til að bregðast við þeim fjölmörgu áskorunum sem landið stendur frammi fyrir með skilvirkum hætti.“

Hvetur yfirvöld til að vinna með borgurunum 

Í Tíblisi, höfuðborg Georgíu, hafa mótmæli geisað síðasta mánuðinn og þar berjast mótmælendur nú við óeirðalögregluna fyrir utan þinghúsið. 

Þá komu 100.000 mótmælendur saman til að mótmæla lögunum á laugardaginn, en um var að ræða stærstu mót­mæli síðari ára í Georgíu.

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna lýsir áhyggjum sínum af ónauðsynlegri og óhóflegri valdbeitingu gegn mótmælendum og er það ekki í fyrsta sinn sem skrifstofan gerir slíkt. 

„Yfirvöld þurfa tafarlaust að rannsaka ásakanir um ofbeldi og illa meðferð í tengslum við mótmælin, þar á meðal tilkynningar um árásir á mótmælendur og fjölskyldur þeirra,“ segir Turk.

„Ég skora á yfirvöld í Georgíu að byggja á mikilvægum nýlegum mannréttindaafrekum og vinna með öflugu borgaralegu samfélagi landsins til að leysa núverandi áskoranir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert