Loka gátt á milli Dyflinnar og New York

Frá Dyflinni á degi heilags Patreks.
Frá Dyflinni á degi heilags Patreks. AFP

Yfirvöld í Dyflinni hafa ákveðið að loka á gátt sem tengdi borgina við New York-borg, vegna óviðeigandi hegðunar borgarbúa.

Gáttin var hluti af skúlptúr sem var opinberaður fyrir aðeins viku síðan og var tengdur New York-borg í beinni útsendingu allan sólarhringinn. Gerði það borgarbúum beggja borga kleift að hafa samskipti hver við annan í rauntíma.

Myndbönd sem farið hafa í dreifingu á netinu sýna hvernig ýmsir einstaklingar, báðum megin við gáttina, sýna líkamsparta sína með óviðeigandi hætti. Sást þá einnig einstaklingur í Dyflinni halda á ljósmynd af hryðjuverkunum 11. september fyrir framan gáttina.

Í tilkynningu frá yfirvöldum í Dyflinni kemur fram að hönnuðir skúlptúrsins séu nú að kanna mögulegar lausnir við vandamálinu. Komið hefur fram að vænlegasta lausnin hafi verið að reyna að brengla myndir af óviðeigandi hegðun, en sú lausn mun hafa reynst ófullnægjandi.

Meirihluti einstaklinga hafi hagað sér með viðeigandi hætti

„Það er mikilvægt að taka fram að yfirgnæfandi meirihluti einstaklinga sem áttu samskipti við gáttina í Dyflinni höguðu sér með viðeigandi hætti,“ segir í tilkynningu yfirvalda.

Komið hefur fram að mögulega verði kveikt aftur á gáttinni síðar í vikunni en fyrirhugað var að skúlptúrinn yrði virkur fram að hausti.

Áður en skúlptúrinn var opinberaður hafði borgarstjóri Dyflinnar, Daithi de Roiste, hvatt borgarbúa til að umgangast verkið og skila írskri kveðju og góðvild til borga víðs vegar um heiminn. Til stendur að tengja borgina við gáttir m.a. í Póllandi og Brasilíu á komandi mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert