Óljós aldur sakbornings olli vafa

Aldur sakbornings olli vafa við ákvörðun refsingar í manndrápsmáli frá …
Aldur sakbornings olli vafa við ákvörðun refsingar í manndrápsmáli frá 2022. AFP

Maður hlaut í gær níu og hálfs árs fangelsisdóm fyrir að skjóta rúmlega fertugan mann til bana í Ronna-hverfinu í sænska bænum Södertälje í október 2022. Féll dómurinn á sænska millidómstiginu, hovrätten, sem staðfesti þar með dóm héraðsdóms sem kveðinn var upp yfir skotmanninum og þremur vitorðsmönnum hans. Alls voru þó fjórtán manns ákærðir fyrir aðkomu að málinu.

Aðalsakborningurinn er af erlendu bergi brotinn og krafðist saksóknari lífstíðardóms í tilfelli hans en talið var öruggt að fórnarlambið hefði verið myrt í misgripum, hið raunverulega skotmark hefði verið annar maður.

Gert að sæta aldursgreiningu

Það sem olli hins vegar verulegum vandkvæðum við ákvörðun refsingar var vafi um aldur ákærða en þar sem fæðingardagur hans er óþekktur var ekki hægt að slá því föstu fyrir dómi hvort hann hefði verið orðinn 18 ára þegar hann framdi brotið.

Var ákærði látinn gangast undir aldursgreiningu sem leiddi í ljós að verulegar líkur væru að hann hefði verið 18 ára eða eldri í október 2022. Þetta var þó ekki hægt að færa sönnur á með óyggjandi hætti og dómari millidómstigsins taldi aðra aldursgreiningu, sem framkvæmd var, heldur ekki nægilega örugga.

Annar dómur mildaður verulega

Þar sem ekki var hægt að kveða upp úr með hvort sakborningurinn hefði verið undir 18 ára aldri eður ei á verknaðarstundu taldi dómari ótækt að fella dóm sinn í samræmi við kröfu saksóknara um lífstíðarfangelsi og staðfesti dóm héraðsdóms sem dæmt hafði níu og hálft ár.

Dómari áfrýjunardómstólsins mildaði dóm tæplega þrítugs manns sem hlotið hafði sjö ár í héraði fyrir samverknað við manndráp. Sá fékk dóm sinn styttan í tvö ár og einn mánuð fyrir vopnalagabrot og taldi dómari millidómstigsins ósannað að hann hefði komið að skipulagningu ódæðisins í október 2022.

SVT

SVTII (líklega mistök)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert