Stefnir Meta fyrir svindlauglýsingar

Japanskur auðkýfingur hefur stefnt Meta fyrir að leyfa svikurum að …
Japanskur auðkýfingur hefur stefnt Meta fyrir að leyfa svikurum að nýta miðilinn til að hafa fé af grandlausum. AFP/Sebastian Bozon

Japanski auðkýfingurinn Yusaku Maezawa kvaðst í dag hafa stefnt bandaríska samfélagsmiðlarisanum Meta, eiganda Facebook, og Japansútibúi fyrirtækisins vegna notkunar á nafni hans og ímynd í auglýsingum svikahrappa á Facebook þar sem nafni hans hafi verið beitt til að ginna notendur miðilsins til að leggja peninga í gabbfjárfestingar.

Í einni auglýsingunni segir, svo dæmi sé tekið, „Byrjaði með 10.000 jen, græddi 1,3 milljónir jena á fjórum dögum.“ Þarna er nafn Maezawa notað ásamt mynd hans og yfirlýsingin auðvitað tóm tjara.

Svikahrappar hafa sannarlega haft erindi sem erfiði í Japan eftir því sem ríkislögreglustjóri landsins greinir frá. Hafa þeir haft upphæð út úr fórnarlömbum sínum sem nemur 27,8 milljörðum jena, en það jafnast á við 24,8 milljarða íslenskra króna.

Vill 0,89 krónur í bætur

Maezawa, stofnandi stærstu netverslunar Japans með fatnað, ritaði á miðilinn X í dag að Meta „gerði ekkert“ til að stöðva ólögmæta notkun nafns hans og myndar. „Ég vonast til þess að fá úr því skorið hvort [háttsemi Meta] sé ólögmæt eða ekki,“ sagði þar auk þess sem auðkýfingurinn kvaðst fara fram á bótagreiðslu frá Meta sem næmi einu japönsku jeni en sú upphæð er tæp ein íslensk króna.

„Verði þetta talið ólögmætt auðveldar það fórnarlömbum að sækja bætur og verður stórt skref í baráttunni gegn svikum,“ skrifar Japaninn og birtir skjáskot af stefnu, sem hann hefur lagt fram við dómstól í Tókýó, með færslunni á X.

Maezawa vakti ekki alþjóðlega athygli fyrir fataverslun í Japan, það gerði hann hins vegar þegar hann greiddi fyrir að fara til tunglsins í framtíðarför geimflaugar Tesla-kóngsins Elons Musks á sínum tíma.

Þekkt svikaaðferð í Noregi

Eftir því sem japanska ríkisútvarpið NHK greinir frá hefur Frjálslyndi demókrataflokkurinn, sem situr í stjórn þarlendis, kynnt áætlanir sínar um að skera upp herör gegn svikahröppum á lýðnetinu sem nýta sér nafn og persónu þekktra einstaklinga og gengur misgott til ætlunar.

Sömu svikaaðferðir hafa verið þekktar víða um heim og hafa Norðmenn til dæmis ekki farið varhluta af þeim. Þar í landi hafa uppdiktuð viðtöl við hótelkónginn Olav Thon, leikarann Kristofer Hivju og fleiri birst á fullkomlega skrifaðri norsku og farið sem eldur í sinu um Facebook.

Kveðast þeir þar hafa mokað inn fé á þeim fjárfestingum sem svikararnir bjóða og hafa öðlast nýtt líf. Þeir sem kannast við hinn sérvitra og bráðskemmtilega hótelkóng, stofnanda og eiganda Thon-keðjunnar, falla þó tæplega fyrir slíku þar sem enn meiri auðæfi virðast síst það sem hann þarfnast.

Thon ekur um á áratugagömlum bíl, leyfir sér lítinn munað og mætir á alla fundi og ráðstefnur með smurt brauð að heiman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert