Framleiddu djúpfalsað efni

Starfsmenn Svíþjóðardemókratana eru sagðir hafa vísvitandi skapað upplýsingaóreiðu í aðdraganda …
Starfsmenn Svíþjóðardemókratana eru sagðir hafa vísvitandi skapað upplýsingaóreiðu í aðdraganda Evrópuþingskosninganna. AFP

Flokksritarar þingflokka í Svíþjóð lýsa miklum vonbrigðum vegna fundar um hneykslismál er tengist Svíþjóðardemókrötum og nafnlausum reikningum þeirra á samfélagsmiðlum sem eru sagðir hafa viljandi stuðlað að upplýsingaóreiðu.

„Því miður fengust engin svör við þeim spurningum sem við settum fram,“ sagði Tobias Baudin, flokksritari Jafnaðarmannaflokksins í viðtali við sænska ríkismiðilinn SVT.

Kvaðst hann ekki heldur vita hvenær forsætisráðherra landsins hygðist stíga fram og kalla saman þjóðaröryggisráð vegna málsins. 

Sagði flokksritari Vinstri-flokksins, Aron Etzler, þunga ábyrgð nú hvíla á herðum ríkisstjórnarinnar um að taka skýra afstöðu um hvað teldist ásættanleg hegðun í sænskum stjórnmálum.

Framleiddu og dreifðu röngum upplýsingum

Heimildarmyndin Kalla Fakta eða Kaldar Staðreyndir hefur vakið mikla ólgu í Svíþjóð en myndin, sem var frumsýnd fyrir tveimur vikum, leiddi í ljós að starfsmenn flokksins hefðu notað fleiri en 20 nafnlausa reikninga á samfélagsmiðlum til að stuðla að upplýsingaóreiðu í aðdraganda Evrópuþingskosninga. 

Eiga starfsmennirnir að hafa fjöldaframleitt myndir, myndbönd og djúpfalsað efni (e. „deepfakes“) fyrir samfélagsmiðla til að dreifa misvísandi og röngum upplýsingum um pólitíska andstæðinga sína, sem og stuðningsaðila, í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á eigin málstað.

Hefur flokkurinn þvertekið fyrir tengsl við netaðganga þeirra en heimildarmyndin sýnir fram á náin tengsl ráðamanna innan flokksins. Til að mynda má rekja mikið af efninu til YouTube-rásar sem var upprunalega stofnuð af flokknum undir nafninu Riks.

Var rásin seld í fyrra en samkvæmt heimildarmyndinni eru enn náin tengsl á milli flokksins og rásarinnar. Þau deila skrifstofum, starfsfólki og upplýsingum og meðal annars eru daglegir fundir á milli eiganda Riks, Jacob Hagnell, og samskiptastjóra Svíþjóðardemókrata, Joakim Wallerstein.

Þá koma einnig fram í myndinni heimildir fyrir því að formaður Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, þekki til að minnsta kosti eins nafnlauss reiknings. 

Eiga rætur að rekja til nasista

Lýsa sænskir og danskir fjölmiðlar herferð flokksins sem „tröllaverksmiðju“ sem er vísan til hugtaksins „nettröll“, þ.e. netnotandi sem vísvitandi móðgar eða ögrar öðrum netnotendum. 

Til samans eru reikningarnir með fleiri en 260.000 fylgjendur og hafa birt fleiri en 1.000 færslur á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, með fleiri en 27.000 áhorf og lesendur.

Eru Svíþjóðardemókratarnir kenndir við stefnu gegn innflytjendum, íhaldssama félagsstefnu og þjóðernishyggju, en flokkurinn var stofnaður seint á níunda áratugnum að hluta til af aðgerðarsinnum með tengsl við nýnasista. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert