Kallaði eiginkonu forsætisráðherra Spánar spillta

Ummælin lét Milei falla á ráðstefnu í Madríd sem var …
Ummælin lét Milei falla á ráðstefnu í Madríd sem var skipulögð af spænska hægriflokknum Vox. AFP

Spánverjar krefja Javier Milei, forseta Argentínu, um „opinbera afsökunarbeiðni“ vegna ummæla sem hann lét falla um eiginkonu Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar. Kallaði Milei eiginkonuna, Begonu Gomez, „spillta“, án þess þó að nefna hana á nafn.

Jose Manuel Albares, utanríkisráðherra Spánar, hefur kallað sendiherra Argentínu til fundar í dag. 

„Ég ætla að útsskýra fyrir honum alvarleika málsins og ég ætla að krefjast opinberrar afsökunar frá Javier Milei.“ sagði Albares í viðtali við Cadena Ser-útvarpsstöðina. 

Pedro Sanchez og eiginkona hans, Begona Gomez.
Pedro Sanchez og eiginkona hans, Begona Gomez. AFP

Hann sagðist ekki geta útilokað að slíta stjórnmálasamstarfi við Argentínu en forsetinn bæðist ekki afsökunar. 

„Við augljóslega viljum ekki fara í þær aðgerðir, en ef það er engin opinber afsökunarbeiðni, munum við gera það.“

Þá hefur Josep Borell, ut­an­rík­is­mála­stjóri ESB, fordæmt ummælin. 

„Þegar þú átt spillta konu“

Ummælin lét Milei falla á ráðstefnu í Madríd sem var skipulögð af spænska hægriflokknum Vox. 

Milei gagnrýndi sósíalisma og Gomez, án þess þó að nefna hana á nafn. 

„Alheimselítan gerir sér ekki grein fyrir hversu mikla eyðileggingu það veldur að hrinda hugmyndum sósíalisma í framkvæmd. Hún veit ekki hvernig samfélag og land það gefur af sér, hvers konar fólk loðir við völd og misnotkunina sem það veldur,“ sagði hann og bætti við: „Þegar þú átt spillta konu, og við skulum segja að það verði sóðalegt og þú tekur þér fimm daga til að hugsa um það.“

Frá ráðstefnunni.
Frá ráðstefnunni. AFP

Sanchez, sem er formaður Sósíalistaflokksins, íhugaði fyrir stuttu síðan að segja af sér eftir að saksóknarar hófu rannsókn á Gomez. Rannsókninni var þó fljótlega hætt. 

Ekkert til þess að biðjast afsökunar fyrir 

Ríkisstjórn Milei hefur sagt að það sé ekkert til að biðjast afsökunar á. 

Guillermo Francos, innanríkisráðherra Argentínu, sagði að spænska ríkisstjórnin ætti frekar að biðjast afsökunar á því sem hefur verið sagt um Milei. 

Milei kom til Spánar á föstudag. Í ræðu sama dag fordæmdi hann „satanískan“ sósíalisma. 

Milei bar sigur úr býtum í kosningum í Argentínu í nóvember og lofaði að ná niður miklum skuldum ríkisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert