Dauðsföll af völdum hvirfilbyls í Iowa

Hvirfilbylur.
Hvirfilbylur. Ljósmynd/Wikipedia.org

Öflugur hvirfilbylur reið yfir Iowa-ríki í Bandaríkjunum í gær sem olli dauðsföllum og slysum á fólki að sögn lögregluyfirvalda í ríkinu.

Hvirfilbylurinn eyðilagði stóran hluta Greenfield-bæjar þar sem búa um 2.000 manns en bærinn er staðsettur um 70 kílómetra suðvestur af höfuðborg ríkisins, Des Moines.

Alex Dinkla, lögreglustjóri í Iowa, sagði á blaðamannafundi að bærinn Greenfield hafi orðið fyrir hrikalegum hvirfilbyl og fóru viðbragðsaðilar fljótlega í björgunaraðgerðir eftir að bylurinn fór um svæðið.

Tugur fluttur á sjúkrahús

„Því miður getum við staðfest að það urðu dauðsföll og slys á fólki á Greenfield-svæðinu af völdum þessa hvirfilbyls,“ sagði Dinkla á blaðamannafundinum.

Lögreglustjórinn gaf ekki upp fjölda dauðsfalla en sagði að um tugur manna hefði verið fluttur á sjúkrahús.

Kim Reynolds, ríkisstjóri í Iowa, hét fullum stuðningi stjórnvalda við íbúa á svæðinu sem urðu fyrir áhrifum hvirfilbylsins.

„Við biðjum fyrir öllum samfélögum og fjölskyldum sem urðu fyrir áhrifum af þessu ofsaveðri og sérstaklega þeim sem misstu lífið á hörmulegan hátt á Greenfield svæðinu,“ sagði Reynolds í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert