Pútín undirbýr ferð til N-Kóreu

Vladimír Pútin, forseti Rússlands.
Vladimír Pútin, forseti Rússlands. AFP

Heimsókn Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, til Norður-Kóreu er í undirbúningi að sögn Dmitrí Peskovs, talsmanns rússneskra stjórnvalda.

Bæði lönd hafa mátt þola þungar refsiaðgerðir af hálfu vestrænna ríkja en þau hafa færst nær saman eftir að Rússar hófu árás á Úkraínu í febrúar 2022. 

Peskov segir í samtali við rússnesku ríkisfréttastofuna RIA Novosti að verið sé að undirbúa heimsóknina og dagsetning á henni verði tilkynnt þegar nær dregur.

Hafa útvegað Rússum vopn í stríðinu

Leyniþjónusta S-Kóreu segir að Norður-Kóreumenn hafi útvegað Rússum mikið magn af vopnum í stríðinu gegn Úkraínu í skiptum fyrir matvæli og ráðamenn í Bandaríkjunum og í Úkraínu hafa sakað Rússa um að skjóta N-kóreskum eldflaugum á Úkraínu.

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu heimsótti Rússland á síðasta ári en þar ræddi hann við Pútín í Vostochny-geimferðastöðunni. Umræðuefni leiðtoganna var hernaðarsamvinna þjóðanna. 

Pútín heimsótti Norður-Kóreu síðast árið 2000, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann tók við völdum í Rússlandi. Þar fundaði hann við Kim Jong Il, föður Kim Jong Un.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert