Norskir auðmenn flýja auðlegðarskatt

Bátar við bryggju í Kongen Marina í Ósló. Norsk stjórnvöld …
Bátar við bryggju í Kongen Marina í Ósló. Norsk stjórnvöld leita leiða til að koma í veg fyrir flótta auðmanna úr landi undan háum sköttum. AFP/Odd Andersen

Norsk stjórnvöld leita nú leiða til að stemma stigu við flótta norskra auðmanna úr landi undan hárri skattlagningu á eignir og arð.

Tugir auðmanna hafa á síðustu árum flutt frá Noregi, einkum til Sviss. Þeirra á meðal eru athafnamaðurinn Kjell Inge Røkke, skíðastjarnan Bjørn Dæhlie og Alfie Haaland, faðir knattspyrnumannsins Erlings Haalands. Í frétt AFP segir að helsta ástæða þessa landflótta sé að norska ríkisstjórnin hækkaði nýlega auðlegðarskatt úr 0,85% í 1% á nettóeignir yfir 1,7 milljónum norskra króna og í 1,1% á hreinar eignir yfir 20 milljónum. Einnig var skattur á arðgreiðslur hækkaður.

Noregur, Spánn og Sviss eru einu Evrópuríkin sem leggja á sérstakan auðlegðarskatt. Í Noregi er skatturinn einnig lagður á uppreiknaðan hagnað af óseldum eignum, svo sem hlutabréfum. Þeir sem einkum kvarta yfir þessari skattlagningu eru eigendur fyrirtækja sem reikna sér hóflegar tekjur þótt markaðsvirði fyrirtækja þeirra sé hátt.

„Ef launin þín eru ein milljón og þú þarft að greiða þrjár milljónir í auðlegðarskatt er ljóst að það gengur ekki upp,“ hefur AFP eftir Tord Ueland Kolstad, sem auðgaðist á fasteignaviðskiptum og flutti, að eigin sögn nauðugur, til Lucerne í Sviss árið 2022. „Kerfið er hannað þannig að það tekur til sín meira en þú getur framleitt.“

Frumkvöðlar hafa þurft að taka út arð úr fyrirtækjum sínum til að standa undir auðlegðarskattinum og þar með dregið úr fjárfestingargetu fyrirtækjanna. Að auki þarf að greiða 37,84% skatt af arðgreiðslunum. „Í raun er aðeins um tvo kosti að velja: að flytja frá Noregi eða selja fyrirtækið,“ segir Kolstad.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í gær, laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert