Eigandi ungbarnaspítalans handtekinn

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AFP/Arun Sankar

Lögreglan á Indlandi hefur handtekið eiganda spítalans þar sem sex ungbörn létust í eldsvoða á laugardaginn.

Spítalinn, sem var ætlaður umönnun ungbarna, var starfræktur án tilskilinna leyfa í Nýju-Delí.

Börnin lágu á fjölmennri deild þar sem engan brunaútgang var að finna þegar eldurinn braust út.

Vegfarendur komu fyrstir auga á eldinn og hættu sér inn til að bjarga ungbörnunum.

Fékk aldrei að halda á dóttur sinni

„Við höfðum ekki einu sinni gefið henni nafn. Ég fékk aldrei að halda á henni,“ sagði Anjar Khan, sem missti ellefu daga gamla dóttur sína í brunanum.

Vinod Sharma, sem missti dags gamlan son sinn kenndi stjórnendum spítalans um harmleikinn.

„Hann átti í öndunarerfiðleikum. Læknirinn sagði að hann myndi ná sér á næstu dögum,“ sagði Sharma. „Við vissum ekki að spítalinn myndi drepa hann.“

Brunarústir spítalans.
Brunarústir spítalans. AFP/Arun Sankar

Engin leið að komast inn

Spítalabyggingin er á tveimur hæðum og staðsett á milli íbúðarhúsa. Áttu slökkviliðsmenn erfitt með að komast að eldinum.

„Við reyndum að ná tök á eldinum en það var engin leið fyrir okkur að komast inn í bygginguna til að bjarga þeim tólf börnum sem voru þar föst,“ sagði Atul Garg slökkviliðsstjóri við blaðamenn.

Spítalabyggingin var á milli íbúðarhúsnæða.
Spítalabyggingin var á milli íbúðarhúsnæða. AFP/Arun Sankar

Leyfi fyrir fimm rúm

Surenda Chaudhary, varðstjóri hjá lögreglunni, sagði brunaútganga ekki hafa verið til staðar.

„Spítalinn hafði leyfi fyrir allt að fimm rúm en þeir höfðu komið fyrir fleiri en tíu rúmum,“ sagði Chaudhary. „Í ljósi þess höfum við handtekið manninn.“

Fimm börn sem höfðu verið á spítalanum liggja nú á öðru sjúkrahúsi og eru enn að ná sér eftir eldsvoðann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert