Eldingar, flóð og straumrof

Óslóarbúum var bundinn myllusteinn um háls í gærkvöldi og fram …
Óslóarbúum var bundinn myllusteinn um háls í gærkvöldi og fram á daginn í dag er gríðarlegt þrumu- og vatnsveður herjaði á Austur- og Suður-Noreg. Skjáskot/Úr myndskeiði Aftenposten

Á fjórða tug þúsunda eldinga hafa sést í Austur- og Suður-Noregi síðasta sólarhringinn sem er met það sem af er árinu en mikið vatnsveður gerði í þessum landshlutum í gærkvöldi og nótt og máttu ökumenn á E6-brautinni á milli Óslóar og Gardermoen-flugvallarins, í sveitarfélaginu Ullensaker norður af Ósló, aka gegnum þéttan regnmúr á tíunda og ellefta tímanum í gærkvöldi.

„Mest var um eldingar á Austurlandinu,“ segir Per Egil Haga, vakthafandi veðurfræðingur á norsku veðurstofunni Meteorologisk Institutt, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en bendir á að eldingar hafi mátt sjá allt norður til Þrændalaga og Lófóten.

Ákaflega sjaldgæft í maí

Rafmagnsleysi plagaði íbúa fjölda sveitarfélaga í Austur-Noregi auk þess sem vatn flæddi inn í kjallara víða, svo sem í Østfold, Follo og Romerike.

Kveður Haga það óvenjulegt að svo mjög sjái til eldinga snemmsumars, yfirleitt tengist slík veðurfyrirbæri síðsumrinu. „Ég vona að þetta met verði ekki slegið í bráð. Þetta er ákaflega sjaldgæft og sérstaklega í maí,“ segir hann.

Í Ósló komust sporvagnar á sumum línum hvorki lönd né strönd vegna vatnselgs á teinunum og sums staðar flutu lausir malbiksbútar vegakerfis höfuðborgarinnar – sem ekki þykir alltaf njóta hins besta viðhalds – í vatnselgnum og urðu til þess að loka þurfti hlutum þess, svo sem syðri hluta Parkveien sem að sögn Joakim Hjertum, sviðsstjóra umhverfissviðs Óslóar, er einfaldlega ónýtur.

Þokast í norðurátt

Solli Plass-torgið var á tímabili á kafi í vatni og heill knattspyrnuvöllur fór algjörlega á kaf og minnti meira á sundlaug en fótboltavöll fljótt á litið.

Slökkvilið Óslóar kallaði út allan tiltækan mannskap til að dæla vatni af götum borgarinnar og stóð sú vinna langt fram á daginn í dag.

Ekki er gert ráð fyrir að veðrið gangi niður fyrr en á morgun en nú þokast það hins vegar í norðurátt og herjar líkast til næst á Valdres og Hallingdal að sögn veðurfræðingsins Haga.

NRK

Aftenposten

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert