Hitabylgja í Finnlandi

Finnar njóta veðurblíðunnar.
Finnar njóta veðurblíðunnar. AFP/Heikki Saukkomaa

Óvenju heitt hefur verið í Finnlandi það sem af er maímánuði en hiti hefur mælst á bilinu 24-28 gráður víðsvegar um landið.

Veðurstofa Finnlands hefur gefið út sérstaka viðvörun vegna hitabylgjunnar og hefur eldri borgurum og ungbörnum verið ráðlagt að halda sig innandyra.

Iiris Viljamaa hjá finnsku veðurstofunni segir nær óheyrt að slíkar viðvaranir séu gefnar út svo snemma árs og að þetta sé í fyrsta skipti sem viðvörun sé gefin út í maí.

Hitinn hefur hæst farið í 28 gráður í bænum Salo í suðvesturhluta landsins, sem er um 10 gráðum yfir meðalhita í maí. Búist er við svipuðum hitatölum fram að mánaðamótum.

Miklar sveiflur í veðri eru þó tíðar í Finnlandi en orsök hitabylgjunnar er háþrýstisvæði sem situr yfir landinu, í bland við hlýjan og þurran loftmassa sem blæs úr suðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert