Myrtur í íbúð í Akershus

Maður á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar í Akershus grunaður …
Maður á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar í Akershus grunaður um að hafa myrt annan, á fertugsaldri, með eggvopni í íbúð í Bjørkelangen í Aurskog-Høland um helgina. Þar með eru fórnarlömb manndrápsmála í Noregi það sem af er ári orðin 26 sem er fáheyrð tala í norskri manndrápstölfræði. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Maður á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar í Akershus í Noregi eftir líkfund í íbúð í Aurskog-Høland aðfaranótt sunnudags en þar fannst annar, á fertugsaldri, örendur í kjölfar þess er lögreglu hafði borist tilkynning laust fyrir klukkan tvö um nóttina að norskum tíma um alvarlegan atburð.

Eftir því sem segir í fréttatilkynningu frá austurumdæmi norsku lögreglunnar bentu verksummerki á vettvangi til þess að hinum látna hefði verið styttur aldur og hófst rannsókn málsins því með þeim formerkjum.

Að sögn Lisbeth Ravlo Backe, ákæruvaldsfulltrúa lögreglunnar, fannst hnífur á vettvangi og gengur lögregla út frá því að honum hafi verið beitt við ódæðið. Enn fremur gefur lögregla þær upplýsingar að hinn látni og grunaði hafi tengst fjölskylduböndum.

Telur sig ekki bera refsiábyrgð

Grunaða var í gær veitt formleg staða grunaðs manns og honum útvegaður verjandi, Per Ove Marthinsen, sem segir við norska ríkisútvarpið NRK að skjólstæðingur hans kannist við að hafa framið verkið en telji sig ekki bera á því refisábyrgð. Við norska dagblaðið VG segir verjandinn að það hafi verið grunaði sjálfur sem kallaði til lögreglu.

Að sögn lögreglu voru fleiri á vettvangi þegar hún kom þar að, meðal annars tvö börn undir lögaldri. Þau eru nú í umsjá barnaverndaryfirvalda og hafa hlotið áfallahjálp.

Annette Rygg, réttargæslulögmaður eins aðstandendanna, kveður málið hið sorglegasta og segir mikilvægt að lögregla fái sinnt rannsóknum sínum.

Það sem af er árinu 2024 hefur norsk lögregla hafið rannsókn á 21 manndrápsmáli þar sem fórnarlömbin eru alls 26 og hafa aðrar eins tölur á innan við fimm mánuðum ekki sést áður í norskri manndrápstölfræði.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert