Sárast að fá stórsködduð börn

Ida McFadzean er norskur fæðingarlæknir sem starfar í Kristiansand. Nú …
Ida McFadzean er norskur fæðingarlæknir sem starfar í Kristiansand. Nú er hún hins vegar stödd í Rafah og tekur jöfnum höndum á móti nýburum og fjarlægir sprengjubrot úr íbúum borgarinnar eða aflimar þá sé þess þörf. Ljósmynd/Rauði krossinn

Á meðan 45 mannslíf, hið minnsta, hurfu sem dögg fyrir sólu inn í eldhaf loftárása Ísraelshers á flóttamannabúðir í hinni stríðshrjáðu borg Rafah á Suður-Gasasvæðinu aðfaranótt mánudags kom nýtt líf í heiminn á sjúkrahúsi Rauða krossins í tjaldi steinsnar frá.

„Að taka á móti nýburum við þessar aðstæður er sérstök upplifun,“ segir Ida McFadzean, fæðingarlæknir frá Kristiansand í Noregi, sem stendur í sjúkratjaldinu og ræðir við blaðamann norska ríkisútvarpsins NRK. Á höndum sér ber hún sveinbarnið Sanad, fyrsta barnið sem fæddist í þessu nýtjaldaða sjúkrahúsi.

Það er McFadzean sjálf sem stendur á bak við nafnið Sanad sem táknar styrkur. „Ég vona að hann muni veita okkur styrk,“ segir fæðingarlæknirinn sem tekið hefur á móti þremur börnum síðustu daga. Sanad fæddist þó fyrstur í tjaldinu.

Stórkostlegt að taka á móti nýju lífi

En starf fæðingarlæknisins á Gasa snýst ekki bara um að taka á móti börnum þótt það geri það heima í Noregi. „Við tökum þátt í verkefnum þar sem við þurfum að aflima fólk, hlúa að því eins og okkur er framast unnt og fjarlægja sprengjubrot sem sitja djúpt í holdinu,“ segir McFadzean án þess að blikna. „Á slíkum stundum finn ég hve stórkostlegt það er að vera fæðingarlæknir og taka á móti nýju lífi,“ segir hún enn fremur.

Um þessar mundir eru engin örugg svæði á Gasa. Því hefur António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, nú slegið föstu. Búðirnar sem urðu fyrir loftárásinni aðfaranótt mánudags áttu að heita öruggar en þar reyndist sannarlega ekki á vísan að róa. Tugir létust og minnst 65 særðust – heilbrigðisráðuneyti Hamas-liða hélt þó fram mun hærri tölu í upphafi.

Árásin á flóttamannabúðirnar var gerð aðeins tveimur dögum eftir að Alþjóðadómstóllinn í Haag skipaði Ísraelsmönnum að hætta árásum á Rafah. „Að horfa upp á þau sár sem saklaust fólk er sært er illt,“ segir norski fæðingarlæknirinn. „Um leið er mér það kært að vera hér og taka þátt í þeirri sjúkrastoð sem nauðsynlegt er að veita.“

Fólkið kveinkar sér ekki

Hún játar að svefninn sigri hana ekki auðveldlega við lok hvers dags í Rafah. „Myndir af miskunnarleysi stríðsins sækja á mig, hve lítils mannslíkaminn má sín gegn slíkum reginkröftum,“ segir hún og vísar til vígvéla nútímans, sprengja sem afmá borgir á hluta úr degi, eyða menningararfi, svipta borgara lífinu eða breyta tilveru þeirra varanlega...og ekki til hins betra.

„Það sem svíður hve sárast er að fá til mín börn og unglinga með alvarlega áverka sem munu fylgja þeim ævina á enda. Ef þau þá lifa yfir höfuð,“ segir McFadzean. Sprengjugnýrinn færist sífellt nær tjaldi hennar og því nær sem sprengjurnar falla þeim mun fleiri særðir koma til meðhöndlunar í tjald fæðingarlæknisins frá Kristiansand.

„En fólkið kvartar ekki,“ bætir læknirinn við, „það kveinkar sér ekki undan því að mega þola þessar raunir. Það vottar kannski best þann lífsneista sem glóir mitt í þessari þungu og óbærilegu tilveru – fólkið vill engu að síður að lífið haldi áfram. Og það gerir það, einhvern veginn heldur það áfram,“ segir Ida McFadzean frá Kristiansand að lokum.

Hvernig fer þetta eiginlega fram?

Það er norski Rauði krossinn sem ber ábyrgð á tjaldinu sem hún starfar í en hann nýtur við það fulltingis Rauðakrossdeilda tíu annarra þjóða auk alþjóðlegu Rauðakrossnefndarinnar ICRC.

Í tjaldinu eru 60 rúm og göngudeild þar sem unnt er að veita 200 manns í einu læknishjálp. Þar starfa þrettán heilbrigðisstarfsmenn, hvort tveggja palestínskir og annarra þjóðerna, ljósmæður, læknar og hjúkrunarfræðingar sem ganga 24 klukkustunda vaktir – svokallað stríðsfyrirkomulag, krigsturnus á norsku.

Að lokinni vakt leggst starfsfólkið til hvílu í öðru tjaldi þar sem hitinn er steikjandi og næðið fyrir einkalíf af mjög skornum skammti.

NRK

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert