Stórbruni í Coop í Norður-Svíþjóð

Coop-verslunin í Arvidsjaur í Norrbotten í Norður-Svíþjóð stendur í ljósum …
Coop-verslunin í Arvidsjaur í Norrbotten í Norður-Svíþjóð stendur í ljósum logum en öllum var komið tímanlega út úr húsnæðinu áður en það varð alelda. Skjáskot/Sjónvarpsfréttatími SVT

Slökkvilið í Arvidsjaur í Norrbotten í Norður-Svíþjóð berst nú við stórbruna í Coop-matvöruverslun þar í bænum og hefur stórt svæði umhverfis verslunina verið rýmt.

„Byggingin er alelda og þakið stendur í ljósum logum,“ segir Susanne Alnebo, neyðarsímavörður hjá neyðarlínunni SOS, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT og bætir því við að vegna mikils reyks frá brunanum séu íbúar á svæðinu beðnir að halda sig innandyra.

Öllum komið út tímanlega

Tilkynning um eldinn barst rétt fyrir klukkan 14 að sænskum tíma, 12 að íslenskum, og er fjöldi slökkviliðsbíla nú á svæðinu að sögn Jenny Skoglund, fréttamanns SVT á vettvangi.

Öllum viðskiptavinum og starfsmönnum var komið út úr byggingunni tímanlega og stýrir lögregla nú umferð á stóru svæði umhverfis brunann og hleypir engum vegfarendum nálægt versluninni.

Bæjarstjórn Arvidsjaur hefur virkjað neyðaráætlun sína og situr nú á fundi.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert