Umdeild ráðgjöf norskrar heilsugæslu

Sørlandsparken-heilsugæslan í Kristiansand í Noregi býður sjúklingum að ráðfæra sig …
Sørlandsparken-heilsugæslan í Kristiansand í Noregi býður sjúklingum að ráðfæra sig við gervigreindarvölvuna ChatGPT áður en rætt er við lækninn. Það geti auðveldað margt. En sitt sýnist hverjum. Ljósmynd/Splege.no

Heilsugæslustöð Sørlandsparken í Kristiansand í Noregi hvetur þá bæjarbúa, sem eiga um sárt að binda og telja sig þurfa læknishjálpar við, til að ná sér í gervigreindarforritið umtalaða ChatGPT áður en þeir heimsækja heilsugæsluna, þar sem gervigreindin eigi greiðari svör við ýmsum læknisfræðilegum spurningum en sjálfir læknarnir.

Þessarar skoðunar er dr. Notto Aleksander Sandnes, læknir við heilsugæslustöðina, sem telur greiningar ChatGPT geta auðveldað samskipti læknis og sjúklings, einkum er þessir aðilar mæla á ólíkum tungum.

„Þarna færðu tungumál sem þú sjálf(ur) skilur, án alls læknifræðilegs fagmáls og orðalags,“ segir dr. Sandnes, „þar með eru allir á sömu blaðsíðu.“ Auk þessa kemur fram í orðsendingu heilsugæslunnar til almennings að ChatGPT sé forrit sem nota megi til þess að finna „áreiðanleg svör við læknisfræðilegum spurningum“.

Nýsköpun án áhættugreiningar

Þessu er Leonora Bergsjø með öllu ósamþykk, dósent við Háskólana í Østfold og Akershus þar sem hún rannsakar stafræna siðfræði. „Mín fyrsta hugsun var að þarna væri komið gott dæmi um nýsköpun án siðferðislegrar áhættugreiningar,“ segir dósentinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Gagnrýnir hún fyrst og fremst að enginn viti með vissu hvert gervigreindarvölvan fræga sæki vísdóm sinn. „Þeir [læknarnir] vita ekki hvaða svar hver um sig fær frá gervigreindarspjallmenninu. Hér er sú áhætta tekin að einhver hætti við að fara til læknis vegna þess að viðkomandi telji sig hafa fengið fullnægjandi svör. Í versta falli verður þetta til þess að draga úr trúnni á heilbrigðiskerfið,“ segir Bergsjø.

Auk þess óttast hún að sjúklingarnir deili viðkvæmum upplýsingum um lýðnetið, upplýsingum um þá sjálfa sem þeir vilja ekki að gervigreindarspjallmenni búi yfir. „Heilsugæslan hefur ekkert forræði yfir því hvernig þær upplýsingar sem sjúklingar gefa verða nýttar,“ segir hún.

Svarið alltaf háð óvissu

Þessu vísar dr. Sandnes alfarið á bug og hafnar því að við gefum ChatGPT meiri upplýsingar en við hvort eð er sendum frá okkur á samfélagsmiðlum. „Við tökum sífellt ákvarðanir þegar við notum Snapchat, TikTok eða Microsoft. Þetta kemur allt út á eitt,“ segir læknirinn sem er því fylgjandi að mannkynið fylgi tækniþróuninni og nýti sér gervigreind.

„Sama er um hvað þú spyrð, svarið verður alltaf háð óvissu. Það gildir um lækninn og það gildir um sjúkrahúsið. Óvissan er alltaf til staðar. En hún er líklega ekkert meiri þar en hjá mér,“ heldur hann áfram.

Sjálfur hefur dr. Sandnes raunar fiktað við gervigreindina í ár og gert ýmsar tilraunir. Hefur hann þar komist að þeirri niðurstöðu að 95 prósent svara gervigreindarspjallmennisins séu rétt. Röngu svörin segir hann oftast sök notandans.

„Flestir gúggla hvort sem er“

NRK ræddi við almenning í Kristiansand til að kanna hug hans gagnvart sjúkdómsgreiningum með gervigreindaraðstoð.

„Hafi maður áhyggjur held ég að ráð sé að tala við lækninn og fá hans ráð fyrst,“ segir Mai Brit Steinsland og uppsker samþykki Eline Colegrove vinkonu sinnar. „Maður gefur upp miklar persónulegar upplýsingar sem nota mætti gegn manni síðar. Mér finnst að fólk ætti að hafa það bak við eyrað,“ segir Colegrove.

Anders Wilhelmsen Berg er ekki eins uppsigað við gervigreindina og síðustu viðmælendum. „Flestir gúggla hvort sem er. Með gervigreind fæst eitt ákveðið svar sem er kannski einfaldara en það sem Google býður upp á,“ telur hann.

Læknasamtök Vest-Agder, fylkis sem nú heitir raunar bara Agder eftir sameiningu árið 2020, eru ekki hlynnt ráðum heilsugæslulæknisins. „Þetta er óvenjulegt og framúrstefnulegt, ég held að það sé bara of snemmt. Mér finnst ekki fullreynt með þetta hjálpartæki,“ segir Ole Georg Vinorum formaður.

Lausnin ekki örugg

Nefnir hann þau rök að sá sem nýtir sér gervigreind við sjúkdómsgreiningu hafi enga stjórn á því hvað verður um upplýsingarnar sem hann sendir frá sér. Það sama gildi ekki um sjúkraskrá á sjúkrahúsi. Í öðru lagi geti viðkomandi ekki sannreynt þau svör sem bjóðast.

„Það sem virðist ókeypis er það ekki, við greiðum fyrir það með persónulegum upplýsingum okkar,“ segir Bergsjø dósent. Hún telur heilsugæslulækninn meina vel, lausnin sé bara ekki örugg og standist hvorki kröfur um persónuvernd né siðferði.

En dr. Sandnes er sannfærður. Hann telur gervigreindarlækni auðvelda allt ferlið. „Hvenær áttu tíma? Hvar áttu tíma? Við hvern áttu að tala? Allt þetta færðu að vita á arabísku eða urdu eða hvaða máli sem þú velur,“ segir læknirinn og situr við sinn keip.

NRK

NRKII (gervigreind í bönkum)

NRKIII (margföldum reikningsgetu okkar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert