Bandarísk skotfæri notuð í árásinni á flóttamannabúðirnar

Frá Rafah-borg í gær.
Frá Rafah-borg í gær. AFP

Skotfæri framleidd í Bandaríkjunum voru notuð í mannskæðu árás Ísraelshers á flóttamannabúðir í Rafah á sunnudag.

CNN greinir frá og vísar í greiningu sprengjuvopnasérfræðinga.

Minnst 45 fórust í árásinni og yfir 200 særðust eftir að mikill eldur braust út. Voru flest þeirra konur og börn, að sögn palestínsks heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisyfirvalda á Gasa, sem eru undir stjórn Hamas.

Á myndefni sem CNN hefur undir höndum má sjá hvernig flóttamannabúðirnar standa í ljósum logum. Konur, börn og menn reyna að finna skjól í mikilli örvæntingu. Viðbragðsaðilar draga brennd lík úr brunarústum, þar á meðal barna. 

Þykir ekki nógu alvarlegt til að draga úr stuðningi

Framganga Ísraelshers á Gasa hefur vakið hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Um 1,3 milljónir Palestínumanna leituðu skjóls í Rafah áður en hernaðaraðgerðir Ísraela hófust þar.

Í gær var greint frá því að ísraelskir skriðdrekar hefðu ráðist inn í miðja Rafah-borg.

Joe Biden Bandaríkjaforseta hefur þó ekki þótt framganga Ísraela í Rafah síðustu daga kalla á breytingar á hernaðaraðstoð til Ísraels.

Hefur hann gefið í skyn í viðtölum að árásin á Rafah hafi ekki þótt fara yfir þau mörk er kalla á að Bandaríkjamenn dragi úr stuðningi sínum.

Í viðtali við CNN fyrr í mánuðinum sagði hann að hann myndi ekki samþykkja að ákveðin bandarísk vopn yrði notuð í stórsóknum í Rafah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert