Brasilía kallar sendiherrann í Ísrael heim

Frederico Meyer, fyrrverandi sendiherra Brasilíu í Ísrael.
Frederico Meyer, fyrrverandi sendiherra Brasilíu í Ísrael. AFP

Brasilía hefur kallað sendiherra sinn í Ísrael heim og þar með hefur stirt samband landanna tveggja orðið enn stirðara.

Samskipti Ísraels og Brasilíu hafa verið bitur síðan Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, sakaði ísraelska ríkið í febrúar um þjóðarmorð fyrir árásir sínar á Gasasvæðið.

Ísraelsmenn urðu ævareiðir við ummælum forsetans og lýstu því yfir að hann væri "persona non grata", eða óvelkominn í Ísrael.

Niðurlæging í Yad Vashem

Ísrael hafði kallað sendiherra Brasilíu, Frederico Mayer, á fund í Yad Vashem, sem er minningarstöð helfararinnar í Jerúsalem, þar sem hann var opinberlega ávarpaður á hebresku án þýðanda. Þessi niðurlæging var á meðal þess sem leiddi til þess að hann var kallaður heim. 

Að sögn heimildarmanns AFP-fréttastofunnar eru engin áform um að sendiherrann snúi aftur til Ísraels og verður fulltrúi Brasilíu diplómatinn Fabio Farias. Ísrael kveðst ekki hafa fengið opinbera tilkynningu um málið og að Farias verði boðaður á fund til utanríkisráðuneytisins á morgun vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert