Gefast upp á Gasa

Sjálfboðaliðar á vegum World Central Kitchen hræra í pottum í …
Sjálfboðaliðar á vegum World Central Kitchen hræra í pottum í Rafah 3. maí. Þessi góðgerðarstofnun spænsk-bandarískra kokksins Jose Andres hefur nú hrökklast út af Gasasvæðinu öðru sinni. AFP

Góðgerðarstofnunin World Central Kitchen, sem undanfarið hefur útbúið máltíðir fyrir þá íbúa Gasasvæðisins er enga björg geta sér veitt, hefur nú lagt árar í bát og hætt starfsemi sinni á þessu stríðshrjáða svæði sem sætir sífelldum loftárásum Ísraelsmanna, nú síðast tveimur er kostuðu tugi manns lífið.

„Í ljósi aðgerða Ísraelsmanna í Rafah er aragrúi fjölskyldna á flótta enn einu sinni,“ segir í yfirlýsingu WCK á samfélagsmiðlinum X sem þar birtist í gær, en það var hinn þekkti spænsk-bandaríski sjónvarpskokkur Jose Andres sem stofnaði eldhúsið miðlæga.

Í yfirlýsingunni á X kom enn fremur fram að árásirnar hefðu neytt matsveina WCK til að færa sig norður á bóginn, í átt frá mesta sprengjugnýnum á Suður-Gasa.

„Aðgerðatengdur dómgreindarskortur“

Ekki er langt síðan WCK lagði niður störf af sömu ástæðu, í apríl, en þá létust sjö starfsmenn þess í þremur loftárásum ísraelsks dróna, Ástrali, þrír Bretar, Bandaríkjamaður, Palestínumaður og Pólverji, og kveiktu mannfórnir þessar mikla reiði mótmælenda víða um heim.

Rannsókn Ísraelshers í framhaldinu leiddi í ljós að stjórnteymi drónans hefði gerst sekt um „aðgerðatengdan dómgreindarskort“ eins og það var orðað, en teymið hafði þá talið sig sjá hryðjuverkamann á bandi Hamas-samtakanna hleypa af skotvopni af þaki vörubifreiðar merktri hjálparstarfsemi.

Heitt hefur verið í kolunum á Gasa mánuðum saman og …
Heitt hefur verið í kolunum á Gasa mánuðum saman og létu sjö starfsmenn WCK lífið í drónaárás Ísraelshers. Nú telja stjórnendur stofnunarinnar starfseminni ekki óhætt á Gasa lengur vegna þess hve rammt kveður að atlögum Ísraela. AFP

Harka hefur hlaupið í aðgerðir Ísraelsmanna á svæðinu síðustu vikur svo sem sjá má af nýlegum hermdaratburðum, svo sem árásinni á flóttamannabúðirnar á sunnudaginn. Ísraelsher kveðst hafa hafið rannsókn á því hvað þar gerðist og hefur þegar slegið þann varnagla að aðgerðir hans einar og sér hefðu aldrei getað orðið kveikja slíks eldhafs.

Hjálparstofnanir kvarta nú yfir því að nær ógjörningur sé að koma hjálparbirgðum eða beinni aðstoð til þeirra svæða á Gasa er orðið hafa sem verst úti og gildi það hvort tveggja um suður- sem norðurhluta svæðisins. Hjálparstarf sé einfaldlega orðið „mjög krefjandi“ eins og Rik Pepperkorn, talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Palestínu, sagði AFP-fréttastofunni í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert