Hitamet yfirvofandi í Norður-Noregi

Íbúar Brønnøysund í Nordland-fylki eiga flestu öðru að venjast en …
Íbúar Brønnøysund í Nordland-fylki eiga flestu öðru að venjast en háum hitatölum en þar gæti standandi hitamet fallið síðdegis í dag. Ljósmynd/Wikipedia.org/Vegardn

Hiti sums staðar í Norður-Noregi mælist nú svo hár að sumarleyfisparadísir á borð við Krít, Ibiza og Tenerife falla í skuggann samkvæmt norsku veðurstofunni Meteorologisk Institutt.

Samtímis því sem íbúar í suðurhluta landsins hafa horft upp á eitt mesta vatns- og þrumuveður í manna minnum síðustu daga gera spár hefðbundinna kuldabæla á borð við Brønnøysund, Mo i Rana, Mosjøen og Sandnessjøen nú ráð fyrir 28 stiga hita eftir hádegi í dag sem er fáheyrt svo norðarlega.

Til samanburðar er hiti á Tenerife nú 24 gráður og 26 gráður á Ibiza, en að sögn vakthafandi veðurfræðings, Maiken Vassel, berst hitinn suður eftir Noregi frá háþrýstisvæði sunnarlega í Rússlandi og mega íbúar Nordland-fylkis reikna með að hiti þar nái hámarki síðdegis í dag.

Enn lengra norður á morgun

Íbúar Brønnøysund bíða þess nú spenntir hvort núgildandi hitamet þar fyrir maí, 27,8 gráður, falli í dag og telur veðurfræðingurinn nokkrar líkur á því.

Á morgun er gert ráð fyrir að háar hitatölur nái enn lengra norður þar til hitastigið fellur að lokum um helgina og í næstu vikur telur Vassel íbúa Nordland-fylkis mega búa sig undir hefðbundinn vorgráma að nýju.

„Nú er bara að njóta hlýindanna. Við mælum með því að fólk fari að öllu með gát í sólinni og muni eftir sólaráburðinum. Það er líka hægt að sólbrenna í Norður-Noregi,“ minnir Vassel á.

Svo sem Norðmenn eiga að venjast fylgir hitanum hefðbundin hætta á skógareldum en hún verður yfirstaðin um leið og regn hefst að nýju.

Áfram má reikna með einhverri úrkomu í Austur- og Suður-Noregi þar sem lægð hvílir yfir hluta svæðisins og eitthvað mun rigna – ekkert þó í líkingu við það sem var fyrstu tvo daga vikunnar, að sögn Unni Nilsen veðurfræðings. Þar á svæðinu mun svo hlýna um helgina, þótt ekki verði tölurnar eins háar og þær sem íbúar Nordland upplifa nú.

NRK
NRKII (hitamet í Finnmark og Troms á þjóðhátíðardaginn)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert